Héraðssaksóknari hefur ákært þrjá einstaklinga, tvær spænskar konur og einn spænskan karlmann búsettan hér á landi, fyrir stórfellt fíkniefnabrot.

Í ákærunni, sem var þingfest fyrir helgi og Fréttablaðið hefur undir höndum, kemur fram að meint brot voru framin í desember 2020. Maðurinn er sagður hafa bókað flugleiðir beggja kvenna og greitt fyrir farmiða þeirra og fylgt annarri konunni til landsins.

Annarri konunni og manninum er gefið að sök að hafa þann 19. desember síðastliðinn staðið að innflutningi á nær fimm kílóum af hassi, rúmum fimm þúsund e-töflum (MDMA) og 100 stykkjum af LSD, ætluðu til söludreifingar hér á landi. Konan flutti fíkniefnin með flugi frá Amsterdam, með millilendingu í Stokkhólmi, og þaðan til Íslands. Fundust efnin í ferðatösku konunnar sem hún hafði meðferðis við komuna til landsins.

Hinni konunni og sama manni er gefið að sök að hafa þann 20. desember staðið að innflutningi á rúmum 250 grömmum af metamfetamíni, ætluðu til söludreifingar. Sú kona flutti fíkniefnin til Íslands með flugi frá Kaupmannahöfn. Samkvæmt ákærunni faldi hún fíkniefnin innvortis, og í dömubindi í nærfatnaði.

Fíkniefnahundur á Keflavíkurflugvelli.
Fréttablaðið/Anton Brink