Fresta þurfti atkvæðagreiðslum á Alþingi í dag vegna þess að of fáir þingmenn voru viðstaddir, við litla hrifningu Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis. Sagði hann að sér þætti þetta vera vond uppákoma þegar þingmenn sem staddir væru í þinghúsinu mættu ekki til atkvæðagreiðslu. „Ég tala nú ekki um þegar þeir hafa óskað eftir henni sjálfir.“

Eftir að hringt hafði verið nokkrum sinnum til atkvæðagreiðslu ákvað Steingrímur að fresta henni og minnti þingmenn á að þeim bæri skylda til að mæta til þingfundar. Sagði hann svo ekki vera um annað að ræða en að nota tímann í aðra hluti „þangað til að menn losna úr því sem teppir þá.“ Var þá farið strax í fjórða dagskrárlið, sem var önnur umræða um breytingu á viðauka við EES-samninginn. Til hafði staðið að kjósa um lengd þingfundar.