Lítil viðbrögð hafa verið við áskorun sem Samtök grænkera sendu á alla grunn- og leikskóla og sveitarfélög á landinu í tilefni af mánaðarlegu átaki þeirra, Veganúar.
Björk Gunnarsdóttir, situr í stjórn Samtaka grænkera og er ein þeirra sem hefur séð um skipulagningu Veganúar. Í tilefni af Veganúar þá skoruðu samtökin á alla leik- og grunnskóla að bjóða upp á grænkerafæði í það minnsta einu sinni í viku í janúar.
Að sögn Bjarkar hafa undirtektir verið heldur dræmar um þátttöku en að margir segi þó að staðan sé nokkuð góð hjá þeim fyrir. Þá vísi einhverjir til þess að þau bjóði upp á mat frá Skólamat og þannig sé vegan valkostur á hverjum degi.
„Í Garðabæ eru allir með mat frá Skólamat þannig geta þau valið vegan-mat,“ segir Björk.
Samtök grænkera sendu einnig fyrir Veganúar áskorun á sveitarfélögin þar sem þau bentu á að vilji foreldrar eða börnin sjálf ekki neyta dýraafurða sé oft kvöð á þeim að koma með læknisvottorð sem sýni fram á ofnæmi eða hreinlega nesta börnin.
Samtökin segja það aukið álag fyrir foreldra en að sveitarfélögin geti brugðist við því með því að setja skýrari stefnu og markmið um grænkerafæði í skólum og leikskólum. Samtökin kalla eftir því að grænkerafæði sé á boðstólum í það minnsta einu sinni í viku, það sé ódýrari valkostur en kjöt og að börnunum sé kennt í heimilisfræði að elda vegan-mat.
Sagt var frá því um helgina að einn af hverjum sjö grunnskólanemendum sem borða mat frá Skólamat velji vegan.