Aðeins rúmur fjórðungur þeirra sem taka afstöðu í nýrri könnun sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið er hlynntur hugmyndum um fjárstuðning hins opinbera við einkarekna fjölmiðla. Rúm 44 prósent segjast andvíg hugmyndunum en tæp 30 prósent eru hvorki hlynnt né andvíg.

Frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um stuðning við einkarekna fjölmiðla er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Mælt var fyrir málinu fyrir jól og rann umsagnarfrestur út 10. janúar.

Samkvæmt frumvarpinu verður 400 milljónum veitt árlega í stuðning til einkarekinna fjölmiðla að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Markmið frumvarpsins er að bregðast við sífellt versnandi rekstrarumhverfi og fjárhagsstöðu einkarekinna fjölmiðla.

Athygli vekur að aðeins 32 prósent stuðningsfólks Framsóknarflokksins eru hlynnt þessum hugmyndum ráðherra flokksins. Um 42 prósent eru andvíg hugmyndunum.

Minnstur stuðningur mælist hjá stuðningsfólki Sjálfstæðisflokksins, aðeins 19 prósent, en 55 prósent eru andvíg. Þá er 21 prósent kjósenda Miðflokksins hlynnt stuðningnum en helmingur er andvígur.

Mestur stuðningur mælist hjá Samfylkingarfólki en 44 prósent þess eru hlynnt áformunum og 37 prósent andvíg. Hjá Vinstri grænum eru 35 prósent hlynnt en 33 prósent andvíg. Um þriðjungur Viðreisnarfólks er hlynntur hugmyndunum en 38 prósent andvíg. Af stuðningsfólki Pírata segjast 29 prósent hlynnt en 45 prósent andvíg.

skífa.jpgFrumvarpið hefur mætt töluverðri andstöðu meðal nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Óli Björn Kárason ásamt þremur öðrum þingmönnum flokksins lagði í desember fram frumvarp þar sem lagt er til að tryggingagjald á fjölmiðla verði afnumið. Telja þeir það skilvirkustu leiðina til að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Í þeim umsögnum sem bárust um frumvarp Lilju er lögð mikil áhersla á að endurgreiðsluhlutfall af tilteknum rekstrarkostnaði verði hækkað úr 18 prósentum í 25 prósent eins og upphaflega var gert ráð fyrir.

Þá leggur Viðskiptaráð til að frumvarpinu verði hafnað og aðrar leiðir farnar eins og að draga RÚV af auglýsingamarkaði.

„Ég fagna því að rúmur fjórðungur þjóðarinnar vill styðja við rekstrarumhverfi fjölmiðla,“ segir Lilja um niðurstöður könnunarinnar. „55 prósent þjóðarinnar eru hlynnt eða hafa ekki mótað sér skoðun á frumvarpinu og því er hægt að una vel við það.“

Bendir hún jafnframt á að stuðningur af þessu tagi hafi reynst vel annars staðar á Norðurlöndunum. „Í síðustu viku funduðum við með sænsku fjölmiðlanefndinni og fram kom þar að stuðningskerfi af þessu tagi hefði reynst vel. Ég segi, annaðhvort höfum við hugrekki í því að styðja betur við fjölmiðla landsins eða ekki. Lengi hefur verið í umræðunni að fara í aðgerðir en fátt komið fram fyrr en nú,“ segir hún.

Könnunin var gerð á tímabilinu 10.-15. janúar síðastliðinn en hún var send á könnunarhóp Zenter rannsókna. Í úrtaki voru 2.170 einstaklingar 18 ára og eldri en svarhlutfall var 52 prósent. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.