Þor­valdur Þórðar­son eld­fjalla­fræðingur segir ekki líkur á eld­gosi á Reykja­nes­skaga sem ógni manns­lífum en mögu­legt sé að skemmdir verði á inn­viðum. Það þurfi að hefja undir­búning svo skaðinn verði sem minnstur.

„Það er lang­lík­legast að það gjósi við Fagra­dals­fjall þótt það sé ekki úti­lokað að gjósi við Svarts­engi eða þar,“ segir Þor­valdur Þórðar­son eld­fjalla­fræðingur sem kveður skjálfta­hrinuna sem nú stendur yfir á Reykja­nes­skaga hluta af þeirri mynd að hafið sé nýtt gos­tíma­bil á svæðinu.

Hörð jarð­skjálfta­hrina var um helgina á Reykja­nes­skaga. Harðasti skjálftinn var upp á 5,4 stig í fyrra­dag. Átti hann upp­tök sín nærri Grinda­vík og fór þá ýmis­legt úr skorðum í bænum svo í­búum þótti nóg um. Fannar Jónas­son bæjar­stjóri segir til­hugsunina um gos ekki þægi­­lega.

„Það eru auð­vitað von­brigði að það skuli vera að taka sig upp jarð­­skjálfta­hrina, eins öflug og raun ber vitni, og við vitum að ef kvikan er að leita sér að leiðum upp getur það hugsan­­lega leitt til þess að það muni gjósa,“ segir Fannar sem hvetur Grind­víkinga til að halda ró sinni en fylgjast vel með ef staðan skyldi breytast.

„Það er sólar­hrings­vakt á svæðinu í kringum okkur. Við treystum bara á vísinda­­menn að vakta þetta vel og ræki­­lega, og grípa svo til að­­gerða á grund­velli við­bragðs­á­ætlana eftir því sem þörf er talin á,“ segir Fannar.

„Það verður að taka það fram að ekkert af þessum gosum er lífs­hættu­legt. Þau eru ekki að fara að sprengja allt upp í loft“

-Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur

Þor­valdur segir lík­legt að ef að komi til eld­goss á næstunni verði meiri að­dragandi að því en nú er orðinn. Þó geti gosið strax í dag. Auk Fagra­dals­fjalls og Svarts­engis­svæðisins gæti gosið við Krýsu­vík, Mó­hál­sa­dal eða Vig­dísar­velli.

„En það verður að taka það fram að ekkert af þessum gosum er lífs­hættu­legt. Þau eru ekki að fara að sprengja allt upp í loft,“ undir­strikar Þor­valdur. „Þetta verða hraun­gos og fólk hefur tíma til að koma sér undan. En ef hraun­gos eru ná­lægt inn­viðum þá er hætta á að þeir verði fyrir skemmdum eða jafn­vel eyði­leggist. Við erum komin inn í gos­tíma­bil og verðum að gera allt sem við getum til að draga úr á­hrifum þeirra eld­gosa sem verða í náinni fram­tíð.

„Mér per­sónu­lega líður mjög illa með þetta. Mér finnst þessi ó­vissa svaka­lega vond,“ segir María Benónýs­dóttir, íbúi í Grinda­vík.