Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir ekki líkur á eldgosi á Reykjanesskaga sem ógni mannslífum en mögulegt sé að skemmdir verði á innviðum. Það þurfi að hefja undirbúning svo skaðinn verði sem minnstur.
„Það er langlíklegast að það gjósi við Fagradalsfjall þótt það sé ekki útilokað að gjósi við Svartsengi eða þar,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur sem kveður skjálftahrinuna sem nú stendur yfir á Reykjanesskaga hluta af þeirri mynd að hafið sé nýtt gostímabil á svæðinu.
Hörð jarðskjálftahrina var um helgina á Reykjanesskaga. Harðasti skjálftinn var upp á 5,4 stig í fyrradag. Átti hann upptök sín nærri Grindavík og fór þá ýmislegt úr skorðum í bænum svo íbúum þótti nóg um. Fannar Jónasson bæjarstjóri segir tilhugsunina um gos ekki þægilega.
„Það eru auðvitað vonbrigði að það skuli vera að taka sig upp jarðskjálftahrina, eins öflug og raun ber vitni, og við vitum að ef kvikan er að leita sér að leiðum upp getur það hugsanlega leitt til þess að það muni gjósa,“ segir Fannar sem hvetur Grindvíkinga til að halda ró sinni en fylgjast vel með ef staðan skyldi breytast.
„Það er sólarhringsvakt á svæðinu í kringum okkur. Við treystum bara á vísindamenn að vakta þetta vel og rækilega, og grípa svo til aðgerða á grundvelli viðbragðsáætlana eftir því sem þörf er talin á,“ segir Fannar.
„Það verður að taka það fram að ekkert af þessum gosum er lífshættulegt. Þau eru ekki að fara að sprengja allt upp í loft“
-Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur
Þorvaldur segir líklegt að ef að komi til eldgoss á næstunni verði meiri aðdragandi að því en nú er orðinn. Þó geti gosið strax í dag. Auk Fagradalsfjalls og Svartsengissvæðisins gæti gosið við Krýsuvík, Móhálsadal eða Vigdísarvelli.
„En það verður að taka það fram að ekkert af þessum gosum er lífshættulegt. Þau eru ekki að fara að sprengja allt upp í loft,“ undirstrikar Þorvaldur. „Þetta verða hraungos og fólk hefur tíma til að koma sér undan. En ef hraungos eru nálægt innviðum þá er hætta á að þeir verði fyrir skemmdum eða jafnvel eyðileggist. Við erum komin inn í gostímabil og verðum að gera allt sem við getum til að draga úr áhrifum þeirra eldgosa sem verða í náinni framtíð.
„Mér persónulega líður mjög illa með þetta. Mér finnst þessi óvissa svakalega vond,“ segir María Benónýsdóttir, íbúi í Grindavík.