Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Alþingismaður Viðreisnar, er ánægð með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að tvöfalda fjárframlög Íslands til Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC) í Haag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tilkynnti 14 milljóna viðbótarframlag Íslendinga til dómstólsins í síðustu viku og sagði hana viðbrögð við ákalli saksóknara ICC um aukinn stuðning. Ákallið er í tengslum við rannsóknir dómstólsins á ætluðum stríðsglæpum í innrás Rússa í Úkraínu.

Í mars hafði Þorbjörg lagt fram þingsályktunartillögu þar sem kallað var eftir 10 milljóna viðbótarframlagi frá Íslandi til sakamáladómstólsins vegna stríðsglæparannsóknanna. Í svari Þórdísar Kolbrúnar við tillögunni sagði hún að ekki væri hægt að eyrnamerkja framlög til dómstólsins í ákveðin verkefni þar sem í því fælust óeðlileg afskipti af forgangsröðun hans.

„Ég er mjög ánægð með að sjá þessi viðbrögð,“ sagði Þorbjörg um viðbótarframlagið sem nú hefur verið tilkynnt. „Þingsályktunartillagan sem ég lagði fram snerist um að íslensk stjórnvöld myndu styðja sérstaklega við dómstólinn í tilefni af þessu stríði og í tilefni af því að það væri hafin rannsókn á stríðsglæpum Rússa í Úkraínu. Hugmyndin kviknaði þannig að ég sá að það var ákall frá yfirsaksóknara dómstólsins og svo sá ég að Litáen hafði verið fyrsta ríkið til að bregðast við með framlagi. Þetta eru kannski táknræn framlög því dómstóllinn er í sjálfu sér fjármagnaður, en auðvitað er nýtt verkefni og stórt eins og þetta kostnaðarsamt.“

„Ég sá viðbótarframlag íslenskra stjórnvalda líka út frá því sjónarmiði annars vegar að það væri mikilvægt að styðja við dómstólinn þegar þessi rannsókn væri farin af stað, og að í því fælist líka ákveðin afstaða um að við ætluðum að standa þessa mannréttindavakt með því að vera skýr í afstöðu okkar um þessi brot sem ég held að blasi við flestum af hálfu Rússlands í Úkraínu. Það hefur verið talað um að það sé mikilvægt að sýna samstöðu og að samstaðan eigi að birtast úr öllum áttum. Það er verið að tala um viðskiptahindranir og að beina kastljósinu að fyrirtækjum og þeirra ábyrgð. Þannig væri þetta þýðingarmikið og táknrænt skref til þess að spegla það að stjórnvöld ætli að vera vakandi fyrir þessum brotum strax frá fyrsta degi.“

Þorbjörg segir að sem gömlum saksóknara finnist henni stríðið sem nú stendur yfir í Úkraínu ólíkt fyrri stríðum þar sem langtum auðveldara sé að afla sönnunargagna um stríðsglæpi og að hlutverk óbreyttra borgara í upplýsingagjöf sé stærra en áður. „Auðvitað þjónar svona rannsókn líka alltaf þeim tilgangi að hafa varnaðaráhrif. Það eru strax farnar að birtast fréttir af því að rússneskir hermenn séu dregnir fyrir dómstóla. Vonandi hefur það áhrif á það með hvaða hætti menn beita sér í stríði. Þótt stríð séu alltaf með kaotískum hætti gilda meira að segja þar reglur um það hvað má og hvað má ekki.“

Þingsályktunartillaga Þorbjargar var ekki komin langt á leið þegar ríkisstjórnin tók þessa ákvörðun. „Ég lagði hana fram og hún fór í bunka með öðrum málum. Mér hefði fundist miðað við mikilvægi málsins að þessu hefði mátt flýta. En ég lagði hana fram með þessum hætti sem þingsályktunartillögu og með ákveðinni upphæð sem var þannig að það þyrfti ekki breytingu á fjárlögum. Ég vonaði að það myndi verða til þess að vekja upp umræðu og kannski hafa einhver áhrif. Ef ríkisstjórninni hugnaðist betur að fara þessa leið frekar en að samþykkja þingsályktunartillöguna mína geri ég engar athugasemdir við það. Niðurstaðan er hin sama, og tilgangurinn var bara sá að stuðla að því að af þessu gæti orðið.“