Baldur Borgþórsson, borgarfulltrúi Miðflokksins, kynnti tillögu á fundi borgarstjórnar í kvöld um að rifta samningi sem borgin gerði árið 2012 við Vegagerðina og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að efla almenningssamgöngur í borginni til tíu ára.

Í tillögunni segir Miðflokkurinn að markmiðin með samningnum hafi algjörlega mistekist en þrjú ár eru eftir af samningnum.

Markmið samningsins var meðal annars að fjölga farþegum á stofnleiðum kerfisins og að fjölga fastanotendum og að auka hlutdeild almenningssamgangna í ferðum til og frá vinnu og skóla innan höfuðborgarsvæðisins.

Hlutdeild strætó hafi ekki aukist milli ára

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, mótmælti tillögunni og velti upp spurningunni hvað myndi gerast ef ríkið hætti að greiða milljarð til sveitarfélaganna í strætó á ári. Sveitarfélögin myndu þá annað hvort mæta auknum kostnaði eða skera niður reksturinn. „Þannig að ég skil ekki alveg hvaða hugsun býr að baki. Hvernig geta sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verið bættari að fá ekki milljarð í strætó frá ríkinu?“ sagði Dagur.  

Sagði hann lykilatriði að efla strætó og að farþegafjöldi hafi réttilega aukist þó hlutdeildin hafa ekki hækkað mikið upp úr um 4%. 

Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir að taka til máls og sagði einnig samninginn hafa mistekist, hlutdeild strætó hafi ekki aukist milli ára og tók heils hugar undir tillögu Miðflokksins. 

Sagði Eyþór mikilvægar samgöngubætur á vegakerfinu hafa verið frystar og þess í stað sé fólk neytt í strætó. Sagði hann samninginn ekki taka mið af því að umferð myndi aukast á komandi árum. „Algjört vanmat á því sem var að gerast í umferðarmálum blasir við á hverju ári,“ sagði Eyþór.

Ástarjátning á einkabílnum

Dóra Björt, borgarfulltrúi Pírata, tók einnig til máls á fundindum og sagði Eyþór hafa lýst yfir „ástarjátningu á einkabílnum“. Dóra vekur athygli á þessu viðhorfi Sjálfstæðismanna til almenningssamgangna á Twitter reikningi sínum í kvöld og segist ekkert skilja í því.

„,,Við hötum ekki almenningssamgöngur” segir XD-fólkið sem vill rifta samkomulagi um eflingu almenningssamgangna. Skil ekkert,“ segir Dóra Björt í tístinu.