Ari Brynjólfsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, fagnar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness sem í morgun dæmdi Seðlabanka Ísland til að afhenda honum upplýsingar um samning Ingibjargar Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans. Héraðsdómur taldi hagsmuni almennings ríkari en hagsmunir bankans.

Ari á eftir að fara yfir niðurstöðuna með lögmanni sínum. Ekki liggur fyrir hvenær gögnin verða afhent.

Um er að ræða samning sem þáverandi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, gerði við Ingibjörgu en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fékk hún greitt á annan tug milljóna króna við starfslok, bæði með launagreiðslum án kröfu um vinnuframlag og námsstyrk við Harvard-háskóla.

„Ég fagna niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness í þessu máli. Það blasti við allan tímann að Seðlabankanum ber að afhenda þessar upplýsingar. Ég á þó eftir að fara yfir niðurstöðuna með lögmanni mínum og hvaða ferli tekur nú við,“ segir Ari. Hann segir stöðuna síðustu ellefu mánuði vera lýsandi fyrir samskipti blaðamanna við hið opinbera.

„Staðan sem ég er búinn að vera í síðustu ellefu mánuði er lýsandi fyrir samskipti blaðamanna við hið opinbera. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað um opnari stjórnsýslu og gagnsæi. Í skýrslu umboðsmanns Alþingis frá því í fyrra er tekin fyrir tregða stjórnsýslunnar við að veita sjálfsagðar upplýsingar. Það virðist vera erfitt fyrir einstaka aðila innan stjórnsýslunnar, sem fela sig iðulega á bak við stofnanaheiti eins og í þessu máli, að skilja að fréttamat kemur þeim ekkert við,“ segir Ari.

Hagsmunir almennings ríkari en bankans

Í forsendum dómsins segir meðal annars að ekkert í samningi þeim sem um er deilt sé háð sérstakri þagnarskyldu bankans og er þeirri málsástæðu bankans hafnað.

Seðlabankinn lagði í sínum málflutningi áherslu á að mikil þörf hafi verið á að halda í þau verðmæti sem fólust í starfsreynslu Ingibjargar Guðbrandsdóttur, vegna þeirra verkefna sem bankinn stóð frammi fyrir á þeim tíma sem samningurinn var gerður.

Dómurinn dregur það mat bankans á aðstæðum ekki í efa. Hins vegar varði sú ráðstöfun sem fram komi í samningnum opinbera hagsmuni og fallist er á það með blaðamanninum að almenningur hafi ríkari hagsmuni af því að skjalið verði gert opinbert en hagsmunir Ingibjargar og Seðlabankans af því að skjalið lúti leynd.

Kröfu bankans um að úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál verði felldur úr gildi var því hafnað.

Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabankans, sagði í samtali við RÚV að dómurinn verði skoðaður.