Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fagnar því að Íslensk erfðagreining virðist nú vera tilbúin að taka þátt í skimun á Keflavíkurflugvelli.

„Mér finnst nú eiginlega aðalatriðið núna vera að það hafi verið leyst úr misskilningi og ágreiningi og ég held að það sé svo sem ekkert stórmál þó það komi einstaka hnökrar á svona flókinni leið,“ sagði Svandís í samtali við RÚV.

Athygli vakti í gær þegar Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, lét stór orð falla í Kastljósi og kvaðst ekki ætla að taka þátt í skimuninni ef hún yrði undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins.

Þar lýsti Kári yfir megnri óánægju sinni með framgang ráðuneytisins og að enginn fulltrúi á vegum fyrirtækisins hafi verið í verkefnastjórn heilbrigðisráðherra um opnun landamæra þann 15. júní.

„Í hroka sínum þá hefur hún ekki treyst sér til að leita til okkar,“ sagði forstjórinn um Svandísi sem hann líkti svo við tíu ára stelpu.

Í hádeginu í dag var komið annað hljóð í strokkinn eftir fund Kára með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra þegar hann sagði líklegt að af samstarfinu yrði.

Í samtali við RÚV í kvöld sagði Svandís að verkefnin sem væri nú unnið að væru miklu mikilvægari en ummæli fólks um einstaklinga.

„Mín persóna skiptir engu máli í þessu efni. Ég bara vinn að þessu verkefni að heilindum eins og ég hef gert hingað til og læt bara einhver ummæli um mína persónu liggja milli hluta.“

Þrýstingur hefur verið á aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar að verkefninu en fram kom í skýrslu verkefnahóps heilbrigðisráðherra að Landspítalinn gæti einungis skimað 500 einstaklinga á dag eins og sakir standa.