„Ég fagna því að Ásmundur Einar Daðason, einn öflugasti stjórnmálamaður landsins, ætli að koma hingað í baráttuna í Reykjavík og ég hlakka til okkar samstarfs,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra um þá ákvörðun Ásmundar að færa sig um set og gefa kost á sér í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir næstu alþingiskosningar.

Lilja hefur ekki lýst því formlega yfir hvort og þá hvar hún verði í framboði fyrir flokkinn en svar hennar við fyrirspurn Fréttablaðsins gefur þó sterklega til kynna að hún verði áfram í framboði í Reykjavík. Þá vísar Ásmundur einnig til væntanlegs samstarfs þeirra í aðdraganda kosninga og mikilvægis þess að flokkurinn styrki sig í þéttbýlinu.

Framsóknarflokkurinn náði bara einum manni inn í Reykjavík í síðustu þingkosningum og hefur ekki mælst með mann inni í Reykjavík í skoðanakönnunum undanfarin misseri.

Með ákvörðun Ásmundar og einnig Þórunnar Egilsdóttur, oddvita í Norðausturkjördæmi sem glímir við krabbamein og gefur ekki kost á sér aftur, skapast rými fyrir nýtt fólk.

Þrír hafa lýst áhuga á leiðtogasæti í Norðvesturkjördæmi: Halla Signý Kristjánsdóttir alþingiskona, Stefán Vagn Stefánsson, lögreglumaður og forystumaður flokksins í Skagafirði, og Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti flokksins í Borgarbyggð.

Í Norðausturkjördæmi hefur Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri, gefið kost á sér til forystu og þar hafa einnig verið nefndir Þórarinn Pétursson varaþingmaður og Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður flokksins í kjördæminu, segist munu lýsa sínum fyrirætlunum á næstu dögum.

Í apríl verða prófkjör bæði í Suðurkjördæmi og í kraganum. Oddvitar þeirra kjördæma, formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson og Willum Þór Þórsson, hafa hvorugur gefið annað til kynna en að þeir verði áfram í kjöri.