Tryggvi Guðjón Ingason, formaður Sálfræðingafélags Íslands, býst við að fylgt verði eftir lagabreytingu um sálfræðiþjónustu þrátt fyrir ummæli fjármálaráðherra um að ekki sé til nægilegt fjármagn. Tryggvi segir það koma á óvart, ef þingið hafi ekki gert ráð fyrir fjármagni.

„Ég geri ráð fyrir því að lögin taki gildi fyrsta janúar um næstu áramót. Ég upplifi sterka samstöðu bæði meðal þingmanna þvert á flokka og á meðal landsmanna. Allir búast við að þessu verði fylgt eftir og allir flokkar hafa lýst því yfir í nokkur ár að þetta sé skref til að taka,“ segir Tryggvi.

Kemur á óvart

Bjarni Benediktsson ræddi um lagabreytinguna í Bítinu í morgun þar sem hann sagði ekkert fjármagn liggja að baki nýsamþykkts frumvarps um gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu.

„Það kemur mér mjög á óvart ef það er sýn hans á málinu,“ segir Tryggvi í samtali við Fréttablaðið, um athugasemdir Bjarna.

„Allir þingmenn sem voru viðstaddir samþykktu breytinguna. Þannig það kæmi mér mjög á óvart ef það er ekki búið að gera ráð fyrir fjármagni fyrir þetta,“ segir Tryggvi.

Risa skref fyrir lýðheilsu landsmanna

Þingið samþykkti í gær lagabreytingu sem hefur það mark­mið að al­­menn sál­­fræði­­þjónusta og önnur klínísk við­talsúr­ræði falli undir greiðslu­þátt­töku­­kerfi Sjúkra­­trygginga Ís­lands eins og önnur heilbrigðisþjónusta.

Sálfræðingafélag Íslands fagnar þessari lagabreytingu sem þau verið að berjast fyrir í áratugi.

„Þetta er risa skref. Það á enn eftir að útbúa reglugerð, rammann í kringum þetta, og eftir að tryggja fjármagnið að sjálfsögðu. En ég er mjög bjartsýnn og geri ekki ráð fyrir öðru en þetta verði komið í gagnið um næstu áramót,“ segir Tryggvi og bætir við:

„Það er mikil gleði meðal sálfræðinga. Þetta er mikilvægt skref fyrir lýðheilsu og geðheilsu landsmanna. Búið er að kalla eftir þessu í mörg ár og í raun hefur félagið verið að berjast fyrir þessu í áratugi. Þetta er rosa stórt skref og við erum óhemju glöð að þetta sé komið. “