Halldór Nellett, fyrrverandi skipherra, fagnar því að það standi til að gera upp breska togarann Ross Revenge. Hann háði rimmu við hann á varðskipinu Ægi árið 1972. Halldór segir að Íslendingar mættu gera slíkt hið sama.

„Flott að þeir ætli að gera Ross Revenge upp sem sýningarskip um horfna tíma, annað en við Íslendingar. Það er skömm að því að við skulum ekki eiga einn einasta togara frá þessum árum,“ segir Halldór sem starfaði í Landhelgisgæslunni í um hálfa öld, í ýmsum störfum. Hann lauk ferlinum árið 2020 sem skipherra á varðskipinu Þór.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær verður togarinn Ross Revenge, áður Freyr, endurgerður sem sýningarskip í Grimsby, þaðan sem hann var gerður út á tímum þorskastríðanna. Hann hefur verið útvarpsskip í nærri 40 ár.

Halldór var 16 ára messagutti á varðskipinu Ægi þegar hann komst í kynni við Ross Revenge. Hann segir það ekki alveg rétt, eins og haldið var fram í gær, að togarinn hafi siglt á varðskipið. „En oft var hann erfiður og í eitt skipti munaði litlu,“ segir Halldór.

„Ég var á Ægi þarna í október 1972, hjá Guðmundi Kjærnested skipherra. Við vorum að stugga við breskum togurum norður af Melrakkasléttu og reyndum klippingu á einum sem ekki hlýddi að hífa upp veiðarfærin,“ segir Halldór.

Ross Revenge eftir strand í Kent árið 1991.
Fréttablaðið/Getty

Þegar þeir nálguðust togara sem hét Aldershot kom Ross Revenge að frá bakborða til þess að freista þess að verja Aldershot. Hann þrengdi að en fleiri togarar voru þarna í grenndinni.

„Við á Ægi vorum komnir í hálfgerða klemmu og það eina sem hægt var að gera vegna Ross Revenge var að setja á fulla ferð milli skipanna,“ segir Halldór. „Skipið var hraðskreitt með góðan vélbúnað og var yfirburðaskip breska togaraflotans. Þegar skipstjóri Aldershot áttaði sig á því að hann væri að missa trollið bakkaði hann fulla ferð afturábak og lenti með skutinn á stjórnborðshlið Ægis en við rétt sluppum við Ross Revenge.“

Aldershot tapaði trollinu og fór til Færeyja í viðgerð og Ægir missti nánast alla stjórnborðslunninguna og þyrluþilfar bognaði niður. Sagan er hins vegar ekki búin, því í janúar árið 2008, þegar Halldór var orðinn framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, fékk íslenskur togari hluta af lunningu í trollið. „Þarna kveikti ég strax á perunni og mundi þennan atburð, við fengum mynd af lunningunni frá skipstjóra togarans og sannfærðumst með því að bera saman við gamlar myndir sem fundust af lunningu Ægis frá þessum árum,“ segir Halldór. „Þetta var greinilega lunning Ægis sem féll í sjóinn þarna í októbermánuði 1972.“