„Maður fagnar því auð­vitað ef fólk er komið að vit­rænni niður­stöðu í þessu máli,“ segir Jón Þór for­maður stjórnar Fé­lags ís­lenskra at­vinnu­flug­manna (FÍA) um það að hætt sé við sölu á flug­vél Land­helgis­gæslunnar TF-SIF.

Jón Gunnars­son dóms­mála­ráð­herra til­kynnti það í fjöl­miðlum í kvöld að hann geri fast­lega ráð fyrir því að hætt verði við söluna og aðrar leiðir fundnar til að halda rekstri LHG á­fram með ó­breyttu sniðu.

„Til­lagan hefur ekki fallið í góðan jarð­veg og ég finn fyrir miklum vilja bæði þing­manna og ráð­herra að bregðast við þessu með öðrum hætti og tryggja rekstur þessarar vélar á­fram í starf­semi gæslunnar,“ sagði Jón í sam­tali við Frétta­blaðið fyrr í kvöld.

Fé­lag ís­lenskra at­vinnu­flug­manna hafði verið mjög gagn­rýnið á á­kvörðun ráð­herra og sagði í á­lyktun frá fé­laginu um málið að á­kvörðun dóms­mála­ráð­herra væri „ó­for­svaran­leg og ó­lög­leg“. Þá var einnig bent á að hvorki væri í lögum um Land­helgis­­gæsluna né í lögum um loft­­ferðir að finna heimildir til að fram­­selja skyldur stofnunarinnar um öryggis­­gæslu og lög­­gæslu á hafinu í sam­ræmi við al­­þjóð­­legar skuld­­bindingar Ís­lands og aðra samninga.

Jón segir að ef eigi að kaupa aðra vél sé þó alls ekki hlaupið að því. Það þurfi að kanna hvað er í boði og slíkt ferli geti tekið mörg ár.

„En það má læra margt af þessu sem hefur gerst hérna síðustu daga,“ segir Jón Þór og að með á­kvörðun sinni hafi ráð­herra farið gegn hefð­bundnum leiðum í slíkri á­kvörðunar­töku og að það sé mjög al­var­legt mál.

„Þegar ráð­herra tekur svona á­kvörðun þá fer hann ekki eftir á og sækir laga­heimild til lög­gjafar­valdsins til að rétt­læta eða full­nægja ein­hverri gerðar­lausri á­kvörðun sem fram­kvæmd­valdið tekur. Þá ertu búinn að snúa réttar­ríkinu á haus. Lög­gjafar­valdið á­kveður þetta og ráð­herra svo fram­kvæmir þetta,“ segir Jón Þór.

Vélin er gríðar­lega mikils virði fyrir land og þjóð að sögn Jóns Þórs. Vélin kom til landsins árið 2009 og er sér­út­búin tækja­búnaði sem getur skipt sköpum í björgunar­að­gerðum.

„Hún hefur mikið flug­drægi og hún er sér­stak­lega vel búin tækjum til leitar og björgunar. Hún er út­búin meðal annars mengunar­varna­radar og mynda­vélum sem bæði geta greint skip og lífs­mark og fólk í sjó, bæði að nótt og degi til. Vélin getur einnig flogið bæði hratt og hægt, hátt og lágt,“ segir Jón Þór og heldur á­fram:

„Vélin er mikil­væg í erfiðum björgunum þar sem þyrlur koma við sögu og getur skipt máli um hvort björgun tekst eða ekki. Hún er líka búin þannig að hún geti kastað út björgunar­bát og vistum til þeirra sem eiga í neyð, hvort sem þeir eru á hafi úti eða á landi. Þessi vél sinnir gríðar­lega fjöl­þættum til­gangi.“

„En ég vona að þetta sé endan­leg á­kvörðun, að það sé búið að snúa þessu við og að fjár­magn verði tryggt. Auð­vitað er á­byrgðar­hluti að fara vel með skatt­fé. Við drögum engan dul á það en það er ekkert bruðl í gangi þarna og það sést vel á þeim gögnum sem Land­helgis­gæslan hefur sett fram,“ segir Jón Þór að lokum.