„Maður fagnar því auðvitað ef fólk er komið að vitrænni niðurstöðu í þessu máli,“ segir Jón Þór formaður stjórnar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) um það að hætt sé við sölu á flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra tilkynnti það í fjölmiðlum í kvöld að hann geri fastlega ráð fyrir því að hætt verði við söluna og aðrar leiðir fundnar til að halda rekstri LHG áfram með óbreyttu sniðu.
„Tillagan hefur ekki fallið í góðan jarðveg og ég finn fyrir miklum vilja bæði þingmanna og ráðherra að bregðast við þessu með öðrum hætti og tryggja rekstur þessarar vélar áfram í starfsemi gæslunnar,“ sagði Jón í samtali við Fréttablaðið fyrr í kvöld.
Félag íslenskra atvinnuflugmanna hafði verið mjög gagnrýnið á ákvörðun ráðherra og sagði í ályktun frá félaginu um málið að ákvörðun dómsmálaráðherra væri „óforsvaranleg og ólögleg“. Þá var einnig bent á að hvorki væri í lögum um Landhelgisgæsluna né í lögum um loftferðir að finna heimildir til að framselja skyldur stofnunarinnar um öryggisgæslu og löggæslu á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og aðra samninga.
Jón segir að ef eigi að kaupa aðra vél sé þó alls ekki hlaupið að því. Það þurfi að kanna hvað er í boði og slíkt ferli geti tekið mörg ár.
„En það má læra margt af þessu sem hefur gerst hérna síðustu daga,“ segir Jón Þór og að með ákvörðun sinni hafi ráðherra farið gegn hefðbundnum leiðum í slíkri ákvörðunartöku og að það sé mjög alvarlegt mál.
„Þegar ráðherra tekur svona ákvörðun þá fer hann ekki eftir á og sækir lagaheimild til löggjafarvaldsins til að réttlæta eða fullnægja einhverri gerðarlausri ákvörðun sem framkvæmdvaldið tekur. Þá ertu búinn að snúa réttarríkinu á haus. Löggjafarvaldið ákveður þetta og ráðherra svo framkvæmir þetta,“ segir Jón Þór.
Vélin er gríðarlega mikils virði fyrir land og þjóð að sögn Jóns Þórs. Vélin kom til landsins árið 2009 og er sérútbúin tækjabúnaði sem getur skipt sköpum í björgunaraðgerðum.
„Hún hefur mikið flugdrægi og hún er sérstaklega vel búin tækjum til leitar og björgunar. Hún er útbúin meðal annars mengunarvarnaradar og myndavélum sem bæði geta greint skip og lífsmark og fólk í sjó, bæði að nótt og degi til. Vélin getur einnig flogið bæði hratt og hægt, hátt og lágt,“ segir Jón Þór og heldur áfram:
„Vélin er mikilvæg í erfiðum björgunum þar sem þyrlur koma við sögu og getur skipt máli um hvort björgun tekst eða ekki. Hún er líka búin þannig að hún geti kastað út björgunarbát og vistum til þeirra sem eiga í neyð, hvort sem þeir eru á hafi úti eða á landi. Þessi vél sinnir gríðarlega fjölþættum tilgangi.“
„En ég vona að þetta sé endanleg ákvörðun, að það sé búið að snúa þessu við og að fjármagn verði tryggt. Auðvitað er ábyrgðarhluti að fara vel með skattfé. Við drögum engan dul á það en það er ekkert bruðl í gangi þarna og það sést vel á þeim gögnum sem Landhelgisgæslan hefur sett fram,“ segir Jón Þór að lokum.