Dijana Una Jankovic, starfsmaður á bæjarskrifstofu Grindavíkur, las fréttir í gær og sá að eldgos væri hafið og skjálftahrinunni líklega lokið. Dijana er hrædd við jarðskjálfta og ákvað því að gleðjast, brunaði út í bakarí og keypti marsípanköku fyrir samstarfsfólk sitt – sem gladdist með enda kakan góð.

Samfélag Dijana Una Jankovic, starfsmaður á bæjarskrifstofu Grindavíkur, fagnar að eldgos sé hafið að nýju og skjálftahrinunni sé þar með væntanlega lokið.

Um leið og Dijana sá fréttirnar um að gos væri hafið brunaði hún út í bakarí og keypti marsípanköku fyrir starfsmenn bæjarskrifstofunnar, með bleiku kremi.

„Ég er svo hrædd við jarðskjálfta og þegar ég heyrði fréttirnar um að gos væri byrjað fór ég og keypti köku fyrir starfsfólkið hér á bæjarskrifstofunni,“ segir Dijana.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og forsetafrú, Eliza Reid, voru stödd í Grindavík í gær þar sem þau stoppuðu meðal annars á bæjarskrifstofunni og sýndu Dijönu og öðrum bæjarbúum stuðning enda hafa Grindvíkingar verið svefnvana undanfarið í skjálftahrinunni.

„Við fengum heimsókn frá forsetanum og Elizu. Þau stoppuðu hér á skrifstofunni og sýndu okkur mikinn stuðning,“ segir Dijana sem stólar á forsetahjónin í framtíðinni.

„Það er ljóst að þau verða að drífa sig hingað aftur ef jarðskjálftarnir byrja á ný því þá hætta þeir og gosið byrjar,“ segir hún og hlær.

Dijana vinnur í afgreiðslunni á bæjarskrifstofunni og býr í blokk í Grindavík á þriðju hæð. Hún segir að hver einasti skjálfti sem mælist finnist heima hjá henni og það sé allt annað en skemmtilegt. Hún er frá fyrrum Júgóslavíu þar sem jarðskjálftar þekkjast varla.

„Það er ekki mikið um jarðskjálfta þar. Ég bý á þriðju hæð og finn nánast alla skjálfta sem mælast. Ég er bara mjög hrædd við þetta og þess vegna er ég svona glöð.“

Dijana brunaði á Víkurbrautina þar sem hún stoppaði Hjá Höllu og keypti dásamlega marsípanköku sem starfsmenn bæjarskrifstofunnar gæddu sér á og glöddust innilega yfir því að þurfa ekki lengur að sofa í jarðskjálftum og hristingi.