Okkur í Cauda Collective finnst gaman að hrista aðeins upp í þessu klassíska tónleikaformi. Það er svo margt hægt að gera til að útvíkka upplifun áhorfandans og finna leiðir fyrir flytjendur til að tengjast áhorfendum betur,“ segir Sigrún Harðardóttir, fiðluleikari sveitarinnar, sem flytja mun verk eftir Stockhausen, Finn Karlsson og Fjólu Evans á tónleikum með stjörnumerkjaívafi á sunnudag.

Á tónleikunum verður flutt tónverkið Dýrahringurinn eða Tier­kreis eftir Stockhausen í nýrri útsetningu meðlima Cauda Collective. Verkið er í tólf köflum og táknar hver kafli sitt stjörnumerki. Tónleikagestir sitja í sætum röðuðum í stóran hring og hver og einn tónleikagestur sest í stól merktan sínu stjörnumerki. Flytjendur eru svo staðsettir í miðjum hringnum og snúa að viðkomandi stjörnumerkjahóp í hverjum kafla fyrir sig.

„Það er frjálst sætaval, þannig að tónleikagestir ráða hvort þeir setjist í sitt stjörnumerki eða hvort þeir vilji velja sér eitthvað annað merki,“ segir Sigrún.

„Það er frjálst sætaval, þannig að tónleikagestir ráða hvort þeir setjist í sitt stjörnumerki eða hvort þeir vilji velja sér eitthvað annað merki.“

„Það er svo fyndið hvað hópurinn er allur orðinn áhugasamur um stjörnuspeki eftir að við byrjuðum að æfa fyrir þessa tónleika. Núna erum við öll að pæla í stjörnumerkjunum. Við erum auðvitað mis-skeptísk á þetta allt saman, en það er eitthvað við þessa dulúð sem kitlar,“ segir hún.

Við þennan nýfundna áhuga kom í ljós að meirihluti hópsins er fæddur í sporðdrekamerkinu.

„Ég sjálf er vatnsberi og tónleikarnir eru meira að segja 5. febrúar, á afmælisdaginn minn. Finnur Karlsson sem skrifar verkið Aquarius sem við frumflytjum á tónleikunum, er líka vatnsberi þannig að við erum aldeilis ánægð að öld vatnsberans sé gengin í garð. Svo erum við með hrút, naut, tvíbura, meyju og ljón.

Ég held að þetta sé nokkuð góð samsetning, enda erum við fjölbreyttur hópur með mismunandi styrkleika. Okkur vantar þó fiska, krabba, vog, bogamann og steingeit, þannig að við auglýsum eftir samstarfsaðilum í þeim merkjum fyrir næstu tónleika,“ segir hún í léttum tón.

„Okkur vantar þó fiska, krabba, vog, bogamann og steingeit, þannig að við auglýsum eftir samstarfsaðilum í þeim merkjum fyrir næstu tónleika,“

Samkvæmt stjörnuspekingum hefur nú gengið í garð öld vatnsberans, tímabil sem á að einkennast af mikilli endurskipulagningu á heimsmynd mannanna; fyrst með niðurbroti og svo með enduruppbyggingu, en einnig af vaxandi víðsýni mannshugans. Valdi hópurinn því þessa yfirskrift yfir tónleikana á sunnudaginn.

„Á öld vatnsberans munu menn í auknum mæli vilja vaxa og vinna saman að friði og þess vegna er talið að tímabilið muni fyrst einkennast af umróti og óstöðugleika, sem síðan færir mannkynið í átt að jákvæðum breytingum. Þá munu fylgja vatnsberanum tækninýjungar og byltingarkenndar uppgötvanir í vísindum.

Upphaf tímabilsins markast af því að Júpíter og Satúrnus mætast í vatnsbera og er það í fyrsta skipti í um 200 ár sem pláneturnar hittast ekki í jarðmerki, heldur í loftmerki. Þegar þetta gerist á mannkynið eftir að upplifa von og nýsköpun í auknum mæli en loftmerki himingeimsins tákna samvinnu og tækninýjungar.“