Íbúasamtök Bústaða- og Fossvogshverfis fagna niðurstöðu Borgarstjórnar Reykjavíkur um að ekki verði ráðist í framkvæmdir við Bústaðaveg.
Þetta kom fram á fundi samtakanna í dag, að því er fram kemur í tilkynningu.
„Þótt bókunin sé óljós um hvort ákvörðunin nái til framtíðar verður ekki annað séð en að hlustað hafi verið á athugasemdir íbúa hverfisins, að minnsta kosti að svo stöddu,“ segir jafnframt í tilkynningunni.
Greint var frá því í gær að Reykjavíkurborg hefði hætt við áform um uppbyggingu beggja vegna Bústaðavegar ofan Fossvogshverfis.
Ástæðan var sögð vera mikil andstaða íbúa hverfisins.
Í tilkynningu frá íbúasamtökunum segir að allar athugasemdir íbúa hverfisins við tillögum hafi talað einu máli; „að hugmyndir Reykjavíkurborgar leiddu af sér skipulagsslys af einhverju tagi.“
Íbúasamtök Bústaða- og Fossvogshverfis skora á önnur hverfi í Reykjavík að taka höndum saman og sporna sameiginlega við öllum áformum sem fela í sér skerðingu á lífsgæðum og beita þar með lýðræðislegum rétti sínum.