„Við fögnum fimm ára afmæli hátíðarinnar nú í ár,“ segir Sesselja Hlín Jónasardóttir, annar skipuleggjandi listahátíðarinnar List í ljósi, sem fram fer á Seyðisfirði um helgina.

„Hátíðin er haldin á þessum tíma ár hvert til að fagna komu sólarinnar í bæinn eftir fjóra mánuði í myrkrinu,“ segir Sesselja, en sólin drífur ekki yfir fjöllin umhverfis bæinn svo mánuðum skiptir yfir vetrartímann.

„Upplifuninni þegar sólin kemur aftur yfir fjöllin er eiginlega ekki hægt að lýsa. Það að fá sólargeislana í andlitið er ótrúlega mikilvægt,“ segir Sesselja og bætir við að það sé vel þess virði að fagna komu sólarinnar.

Sesselja Hlín Jónasardóttir og Celia Harrison eru skipuleggjendur List í ljósi.
Mynd/Aðsend

Bærinn lýstur upp með tuttugu verkum

Fjöldi innlendra og erlendra listamanna sýnir tuttugu verk á hátíðinni og segir Sesselja ekki hægt að setja stemninguna í orð. „Hátíðin er haldin utandyra þar sem við slökkvum öll ljós í bænum og í mínútu er alveg dimmt. Svo lýsum við upp daginn með verkunum,“ segir hún. Verkunum er varpað á hús bæjarins og náttúruna sem umlykur hann.

Una Björg Magnúsdóttir myndlistarkona er ein þeirra sem sýna verk á hátíðinni. Verk hennar, Slow Scene on Ice, verður til sýnis ofan í lóninu í bænum. „Verkið er skúlptúr sem svipar til leikmyndar. Það verður ofan í lóninu og eins og veðrið er má vel vera að það frjósi þarna ofan í,“ segir Una og hlær.

„Ég er búin að vera hérna í vinnudvöl í fjórar vikur og hér eru allir spenntir fyrir hátíðinni og afar stoltir,“ segir Una.

Hún upplifði það í gær þegar sólin teygði sig yfir fjöllin og segir hún líkt og Sesselja að augnablikið hafi verið magnað. „Ég hef aldrei áður verið svona lengi þar sem sér ekki til sólar í svona langan tíma og það kom mér mjög mikið á óvart hvað þetta hefur mikil áhrif á mann,“ segir hún.

Una Björg Magnúsdóttir, myndlistakona.
Mynd/Aðsend

Bæjarbúar taka mikinn þátt

Bæði Sesselja og Una segja bæjarbúa taka mikinn þátt í hátíðinni og að allir séu þeir af vilja gerðir að leggja hönd á plóg. „Ég hitti tvær eldri konur í sundlauginni um daginn og þær sögðu mér frá því að þær væru búnar að vera að leita í geymslunni að gömlum jólaljósum því einhvern vantaði þau,“ segir Una.

Hátíðin hefst í dag með listsýningu í Herðubreið klukkan 17 en vaninn er þó að hún hefjist á föstudegi. „Bæði eigum við von á mörgu fólki að sunnan og svo er veðurspáin ekki góð fyrir föstudaginn svo við ákváðum að hefja hátíðina á fimmtudegi þetta árið,“ segir Sesselja og bætir við að fjöldi erlendra ferðamanna leggi einnig leið sína í bæinn til að njóta listarinnar og myrkursins. „Ég hef heyrt af fólki sem er að koma alla leið frá Ástralíu til að upplifa hátíðina.“

Kveikt verður á listaverkum hátíðarinnar klukkan 18 í dag og verða þau til sýnis fram á laugardag.

Mörg hús og náttúran á Seyðisfirði eru lýst um með listaverkum á hátíðinni. Þetta verk skreytti hús bæjarins í fyrra.
Mynd/Aðsend