Mann­réttinda-, ný­sköpunar og lýð­ræðis­ráð fagnaði á síðasta fundi sínum bréfi frá fé­lags­mála­ráð­herra þar sem hann til­kynnti þeim að hafin sé vinna innan ráðu­neytisins, í sam­starfi við Vinnu­eftir­litið, um að endur­skoða reglur um hús­næði vinnu­staða svo að hægt sé að inn­leiða lög um kyn­rænt sjálf­ræði.

„Fyrsta sam­þykkt mann­réttinda-, ný­sköpunar- og lýð­ræðis­ráðs á kjör­tíma­bilinu sumarið 2018 sneri að því að gera salerni í stjórn­sýslu­hús­næði borgarinnar ó­kyn­greind. Á­stæður þessa var vilji að gera Reykja­vík að hin­segin­vænni vinnu­stað, skapa rými fyrir fjöl­breyti­leikann og styðja við að­gengi trans og inter­sex fólks að Reykja­vík sem starfs­stað enda vill Reykja­vík vera í farar­broddi þegar kemur að vernd og eflingu mann­réttindu. Í kjöl­farið vorum við þó gerð aftur­reka með þá á­kvörðun vegna reglu­gerðar frá 1995 um hús­næði vinnu­staða. Við börðumst í bökkum við þá á­kvörðun og reyndum meðal annars að fá réttar­á­hrifum frestað á meðan málið yrði skoðað út frá laga­stoðum. Ljóst er þó að það verður að breyta reglu­gerðinni svo að Reykja­vík og aðrir vinnu­staðir sem leggja á­herslu á mann­réttinda­vernd og lífs­gæði hin­segin og trans fólks geti tekið þetta skref án vand­kvæða,“ segir Dóra Björt Guð­jóns­dóttir borgar­full­trúi Pírata og for­maður ráðsins.

Ráðið, á­samt fjölda fé­laga­sam­taka, sendi ríkis­stjórninni opið bréf þann 29. nóvember 2021 þar sem kallað var eftir því að þessum reglum yrði breytt svo að stofnanir af stærri gerð gætu breytt salernis­að­stöðu sinni og gert hana kyn­hlut­lausa en sam­kvæmt reglunum verða stofnanir og vinnu­staðir af á­kveðinni stærð að hafa kyn­greind salerni.

Á fundi ráðsins þann 10. febrúar var bréfi ráð­herra fagnað og að það standi til að eiga sam­ráð við bæði ráðið og aðra að­stand­endur opna bréfsins um vinnuna.

Á vef ráðsins segir að svar ráð­herra vitni til um að ráðu­neytið sé loks að hefja heildar­endur­skoðun á reglu­gerð um hús­næði vinnu­staða sem er frá árinu 1995.

Vantar upp á innleiðingu laganna

Dóra Björt segir að lögin um kyn­rænt sjálf­ræði, sem tóku gildi árið 2019, geri ráð fyrir því að fólk geti sjálft skil­greint sitt kyn, notið þeirra réttinda sem því fylgir og þannig gert ráð fyrir því að gengið sé á brott frá hefð­bundnum við­miðum um kynjat­ví­hyggju og skapað rými fyrir fleiri kyn í takt við þróun sam­fé­lagsins.

„Það vantar upp á inn­leiðingu laganna með upp­færslu reglu­gerða svo að lögin hafi til­ætluð á­hrif og verði eitt­hvað meira en fögur orð á blaði. Enn er stofnunum og vinnu­stöðum af á­kveðinni stærð meinað að gera salernis­að­stöðu sína kyn­hlut­lausa, því sam­kvæmt reglu­gerðum verða salerni að vera kyn­greind,“ segir Dóra Björt og þannig gangi „þessi úr­elda reglu­gerð“ frá árinu 1995 í ber­högg við nýju lögin frá 2019.

Hún segir það sama gilda um hollustu­hátta­reglu­gerðina á vegum um­hverfis- og auð­linda­ráðu­neytisins er varðar al­mennings­salerni og klefa.

„Þessum tveimur reglu­gerðum hefur ráðið því beitt sér fyrir því að verði breytt með bréfa­skriftum og sam­tölum við ráðu­neytin og Vinnu­eftir­litið sem og með pólitískum þrýstingi. Ný­lega voru loks sett fram drög að nýrri reglu­gerð um hollustu­hætti sem ráðið skilaði um­sögn um og nú hefur fé­lags­mála­ráðu­neytið að endingu brugðist við á­kalli okkar og fjölda á­skorana með þessu svar­bréfi frá ráðu­neytinu sem kveður á um að nú skuli ráðast í heildar­endur­skoðun á reglu­gerð um hús­næði vinnu­staða og að sam­ráð verði haft við mann­réttinda-, ný­sköpunar- og lýð­ræðis­ráð og aðra hags­muna­aðila sem undir­rituðu opna bréfið fyrir jól. Þar með virðist okkar vinna loksins vera að skila árangri. Um leið og ég fagna því legg ég ríka á­herslu á að verk­efnið klárist og að nauð­syn­leg skref verði stigin að fullu til að vilji lög­gjafans með lögum um kyn­rænt sjálf­ræði nái fram að ganga. Það er okkar ósk að ó­kyn­greind salerni verði við­miðið,“ segir Dóra Björt.

Mikilvægt fyrir breiðan hóp fólks

Hún segir að slík salerni séu mikil­vægt rými fyrir breiðan hóp fólks sem hafi kyn­tjáningu sem skarast á við sam­fé­lags­leg við­mið og að kynjuðu rýmin eru þess utan ó­örugg rými fyrir margt hin­segin fólk.

„Við vitum í dag að kyn eru ekki bara kyn­færi. Það er kyn­vitundin sem ræður kyni fólks og lög um kyn­rænt sjálf­ræði stað­festa það. Þau gera þér kleift að skil­greina sjálft þitt kyn og veita þér þau réttindi sem fylgja því kyni. Þetta er óháð leið­réttingar­ferli við­komandi enda ekki öll sem velja að fara í gegnum slíkt ferli. Jafn­réttis- og mann­réttinda­bar­átta snýst ein­mitt um að skapa rými til að vera alls­konar, með alls­konar líkama. Úr því eru þessi lög sprottin,“ segir Dóra Björt að lokum.