Mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráð fagnaði á síðasta fundi sínum bréfi frá félagsmálaráðherra þar sem hann tilkynnti þeim að hafin sé vinna innan ráðuneytisins, í samstarfi við Vinnueftirlitið, um að endurskoða reglur um húsnæði vinnustaða svo að hægt sé að innleiða lög um kynrænt sjálfræði.
„Fyrsta samþykkt mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs á kjörtímabilinu sumarið 2018 sneri að því að gera salerni í stjórnsýsluhúsnæði borgarinnar ókyngreind. Ástæður þessa var vilji að gera Reykjavík að hinseginvænni vinnustað, skapa rými fyrir fjölbreytileikann og styðja við aðgengi trans og intersex fólks að Reykjavík sem starfsstað enda vill Reykjavík vera í fararbroddi þegar kemur að vernd og eflingu mannréttindu. Í kjölfarið vorum við þó gerð afturreka með þá ákvörðun vegna reglugerðar frá 1995 um húsnæði vinnustaða. Við börðumst í bökkum við þá ákvörðun og reyndum meðal annars að fá réttaráhrifum frestað á meðan málið yrði skoðað út frá lagastoðum. Ljóst er þó að það verður að breyta reglugerðinni svo að Reykjavík og aðrir vinnustaðir sem leggja áherslu á mannréttindavernd og lífsgæði hinsegin og trans fólks geti tekið þetta skref án vandkvæða,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Pírata og formaður ráðsins.
Ráðið, ásamt fjölda félagasamtaka, sendi ríkisstjórninni opið bréf þann 29. nóvember 2021 þar sem kallað var eftir því að þessum reglum yrði breytt svo að stofnanir af stærri gerð gætu breytt salernisaðstöðu sinni og gert hana kynhlutlausa en samkvæmt reglunum verða stofnanir og vinnustaðir af ákveðinni stærð að hafa kyngreind salerni.
Á fundi ráðsins þann 10. febrúar var bréfi ráðherra fagnað og að það standi til að eiga samráð við bæði ráðið og aðra aðstandendur opna bréfsins um vinnuna.
Á vef ráðsins segir að svar ráðherra vitni til um að ráðuneytið sé loks að hefja heildarendurskoðun á reglugerð um húsnæði vinnustaða sem er frá árinu 1995.
Vantar upp á innleiðingu laganna
Dóra Björt segir að lögin um kynrænt sjálfræði, sem tóku gildi árið 2019, geri ráð fyrir því að fólk geti sjálft skilgreint sitt kyn, notið þeirra réttinda sem því fylgir og þannig gert ráð fyrir því að gengið sé á brott frá hefðbundnum viðmiðum um kynjatvíhyggju og skapað rými fyrir fleiri kyn í takt við þróun samfélagsins.
„Það vantar upp á innleiðingu laganna með uppfærslu reglugerða svo að lögin hafi tilætluð áhrif og verði eitthvað meira en fögur orð á blaði. Enn er stofnunum og vinnustöðum af ákveðinni stærð meinað að gera salernisaðstöðu sína kynhlutlausa, því samkvæmt reglugerðum verða salerni að vera kyngreind,“ segir Dóra Björt og þannig gangi „þessi úrelda reglugerð“ frá árinu 1995 í berhögg við nýju lögin frá 2019.
Hún segir það sama gilda um hollustuháttareglugerðina á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er varðar almenningssalerni og klefa.
„Þessum tveimur reglugerðum hefur ráðið því beitt sér fyrir því að verði breytt með bréfaskriftum og samtölum við ráðuneytin og Vinnueftirlitið sem og með pólitískum þrýstingi. Nýlega voru loks sett fram drög að nýrri reglugerð um hollustuhætti sem ráðið skilaði umsögn um og nú hefur félagsmálaráðuneytið að endingu brugðist við ákalli okkar og fjölda áskorana með þessu svarbréfi frá ráðuneytinu sem kveður á um að nú skuli ráðast í heildarendurskoðun á reglugerð um húsnæði vinnustaða og að samráð verði haft við mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð og aðra hagsmunaaðila sem undirrituðu opna bréfið fyrir jól. Þar með virðist okkar vinna loksins vera að skila árangri. Um leið og ég fagna því legg ég ríka áherslu á að verkefnið klárist og að nauðsynleg skref verði stigin að fullu til að vilji löggjafans með lögum um kynrænt sjálfræði nái fram að ganga. Það er okkar ósk að ókyngreind salerni verði viðmiðið,“ segir Dóra Björt.
Mikilvægt fyrir breiðan hóp fólks
Hún segir að slík salerni séu mikilvægt rými fyrir breiðan hóp fólks sem hafi kyntjáningu sem skarast á við samfélagsleg viðmið og að kynjuðu rýmin eru þess utan óörugg rými fyrir margt hinsegin fólk.
„Við vitum í dag að kyn eru ekki bara kynfæri. Það er kynvitundin sem ræður kyni fólks og lög um kynrænt sjálfræði staðfesta það. Þau gera þér kleift að skilgreina sjálft þitt kyn og veita þér þau réttindi sem fylgja því kyni. Þetta er óháð leiðréttingarferli viðkomandi enda ekki öll sem velja að fara í gegnum slíkt ferli. Jafnréttis- og mannréttindabarátta snýst einmitt um að skapa rými til að vera allskonar, með allskonar líkama. Úr því eru þessi lög sprottin,“ segir Dóra Björt að lokum.