Barnaheill, Geðverndarfélag Íslands og Fjölskyldufræðingafélag Íslands leggjast gegn fyrirhuguðum breytingum á lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Bæði gagnrýna þau að til standi að stytta þann tíma sem foreldrar hafi til að nýta orlofið og að hvort foreldri fái sex mánuði sem ekki verði hægt að framselja.

Þá segja félögin ámælisvert að Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hafi ekki skipað fulltrúa með sérþekkingu á börnum og þörfum þeirra í samstarfshóp sem hafi komið að heildarendurskoðun laganna.

Umræddur hópur hafi einungis verið skipaður fulltrúum vinnumarkaðsins, Vinnumálastofnunar og ráðuneyta.

„Með þeirri skipan má draga þá ályktun að ekki hafi staðið til að setja þarfir barna í forgrunn, heldur að líta á fæðingarorlof fyrst og fremst sem vinnumarkaðsúrræði til að ná fram öðrum markmiðum en velferð barna,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu frá félögunum.

Meginhugmyndin að tryggja barni tíma með foreldrum en ekki öfugt

Leggja forsvarsmenn þeirra til að hvert barn fái þess í stað tólf mánaða sjálfstæðan rétt til orlofs með foreldri sínu eða foreldrum og að tímabil orlofstöku verði minnst 24 mánuðir.

Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir því að það tímabil verði stytt úr 24 mánuðum niður í átján.

Barnaheill, Geðverndarfélag Íslands og Fjölskyldufræðingafélag Íslands segjast leggja áherslu á að meginhugmyndin um fæðingarorlof sé að tryggja barni samvistir við foreldra líkt og það er orðað í markmiðsgrein laganna.

Að mati þeirra myndi sú breyting að tryggja hvoru foreldri sex mánaða óframseljanlegan rétt til orlofs brjóta gegn rétti barnsins og áðurnefndu markmiði.

Fyrirkomulagið tryggi foreldrum rétt til samvista með barni en ekki öfugt líkt og markmið laganna segi til um.

Börn eigi ekki að gjalda þess ef foreldri nýti ekki orlofsréttinn

„Þetta er augljóst í tilfelli einstæðra foreldra, þar sem annað þeirra getur af einhverjum ástæðum ekki verið samvistum við barnið (ekki er vitað hver faðirinn er, foreldri er alvarlega veikt, er óhæft eða vill ekki umgangast barnið). Börn sem þannig stendur á um fá þá eftir þessa breytingu 6 + 1 mánuð, 7 mánuði samtals, meðan önnur börn fá 12 mánuði. Barn einstæðs foreldris í dæminu hér á undan ætti ekki að fá minni tíma með foreldri sínu,“ segir í yfirlýsingunni.

Sjálfur hefur Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagt að breytingunni sé ætlað að tryggja að feður taki fæðingarorlof til jafns við mæður.

Telja forsvarsmenn félaganna að börn eigi ekki að gjalda þess ef annað foreldrið nýti sér ekki orlofsréttinn og því ætti hann að vera merktur börnunum óháð því hvernig hann er nýttur.

Þó sé einnig mikilvægt að auka jafnréttisvitund í samfélaginu og stuðla að því að foreldrar taki virkan þátt í uppeldi barna sinna.

Dragi úr sveigjanleika

Félögin segja enn fremur að fyrirhuguð stytting orlofstökutímabilsins skerði frelsi foreldra.

„Það skiptir hins vegar máli fyrir foreldra að hafa ákveðinn sveigjanleika í töku orlofsins þar sem aðstæður til að taka orlof geta verið mismunandi, sumir foreldrar þurfa að skipta orlofinu upp í 50% greiðslur til lengri tíma og því óæskilegt að stytta tímabilið.“

„Við leggjum áherslu á að þarfir barnsins komi alltaf í fyrsta sæti og að þarfir foreldranna þurfi að laga að þörfum barnsins, en ekki öfugt.“

Fréttin hefur verið uppfærð: Áður fylgdi henni ljósmynd af Braga Skúlasyni, þáverandi formanni Fjölskyldufræðingafélags Íslands. Bragi starfar ekki lengur ekki fyrir félagið og tengist því ekki yfirlýsingunni.