Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi hefur lýst yfir vantrausti á hendur stjórnar Íslensku óperunnar.

Formaður og félagsmenn funduðu lengi yfir helgina og ræddu meðal annars sýknudóminn sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar var Íslenska óperan sýknuð í máli sem Þóra Einars­dóttir söng­kona höfðaði vegna samnings­brota. Þóra sagði dóminn vekja margar spurningar sem tónlistarfólk þurfi að spyrja sig varðandi samninga við stéttarfélög og stofnanir eins og Íslensku óperuna.

Söngvarar í Brúðkaupi Fígarós segja Óperuna ekki hafa virt vinnuvernarákvæði.
Mynd: Þjóðleikhúsið/Íslenska óperan

Ása Fanney Gestsdóttir, formaður Klassís, segir vantraustsyfirlýsinguna ekki hafa komið henni á óvart. Að hennar mati hafi sýknudómurinn í raun staðfest í hversu veikri stöðu söngvarar eru gagnvart Íslensku óperunni.

„Það hefur lengi ríkt óánægja meðal óperusöngvara og raunar annars starfsfólks líka, með stjórnarhætti Íslensku óperunnar. Mörg umkvörtunarefni hafa komið inn á mitt borð en ekki ratað í fjölmiðla þar sem fólk hefur verið hrætt um að eyðileggja fyrir sér tækifæri á óperusviðinu. Ég tel að niðurstaða dómsins í máli Þóru Einarsdóttur hafi verið kornið sem fyllti mælinn og söngvarar ekki séð sér annað fært en að lýsa opinberlega yfir því vantrausti, sem lengi hefur kraumað undir niðri. Ekki síst í ljósi þess að nú hyllir undir stofnun nýrrar þjóðaróperu og margir geri sér skiljanlega vonir um að stjórnarhættir Íslensku óperunnar heyri þá sögunni til,“ segir Ása Fanney.

Í apríl í fyrra ræddu sjö stéttar- og fagfélög við Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra vegna fjölda umkvartana sem þeim hafa borist frá sínum skjólstæðingum er varða Íslensku óperuna.

„Sjá má mikla fylgni milli þess að fólk kvarti eða leiti réttar síns og þess að fá ekki aftur vinnu hjá Íslensku óperunni.“

Óánægja hefur lengi kraumað undir yfirborðinu vegna einokunarstöðu Íslensku óperunnar. Söngvarar og tónlistarmenn hafa kvartað undan kröppum kjörum og vinnuálagi en núverandi óperustjóri Íslensku óperunnar, Steinunn Birna Ragnarsdóttir, virti ekki samning FÍH og gildandi vinnuverndarákvæði við uppfærslu á Brúðkaupi Fígarós að þeirra sögn.

Söngvarar eru í veikri stöðu þar sem Íslenska óperan er eini starfsvettvangur óperu á Íslandi. Hingað til hafa söngvarar ekki þorað að leita réttar síns af ótta við að missa af starfstækifærum. Álagið er gríðarlegt og tækifærin fá og hagur sviðlistafólks ekki í forgrunni.

Lengi hefur verið kallað eftir stofnun þjóðaróperu en með nýjum sviðslistalögum sem tóku gildi í júlí 2019 var samþykkt að nefnd um stofnun hennar myndi taka til starfa. Íslenska óperan á sæti í nefndinni en nú þegar fagfélög hafa lýst yfir algjöru vantrausti á hendur þeim vakna margar spurningar um hlutverk þeirra í ákvarðanatöku um framtíð óperu á Íslandi.

Ása Fanney formaður.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Fagfólki ýtt úr stjórn

Félagsmenn ræddu um hlutverk stjórnar Íslensku óperunnar á fundi Klassís yfir helgina. Segja þau aðkomu söngvara hafa farið farið stöðugt minnkandi og að nú sé svo komið að aðkoma þeirra er engin. Dæmi eru um að stjórnin hafi markvisst komið í veg fyrir aðkomu söngvara, til dæmis með því að breyta samþykktum sínum á lokuðum fundi til að koma í veg fyrir að réttilega tilnefndir söngvarar tækju sæti í stjórn.

„Undanfarin ár hefur stjórn og óperustjóri Íslensku óperunnar endurtekið sýnt áhugaleysi á að heyra sjónarmið, umkvörtunarefni og tillögur frá söngvurum og öðru fagfólki á sviði óperulistar,“ segir í tilkynningu frá Klassís.

„Ekki er í raun hægt að líta á samninga Íslensku óperunnar við söngvara sem annað en gerviverktöku.“

Líta á samninga Íslensku óperunnar sem gerviverktöku

Félagsmenn Klassís segjast hafa sýnt langlundargeð varðandi ófagmannlega stjórnunarhætti Óperunnar um langt skeið og sé það nú þrotið. Söngvarar hafi alla tíð stutt óperuflutning á Íslandi með sínu framlagi og haft ríkan skilning á þröngri fjárhagsstöðu óperunnar. Söngvarar hafi þannig oftar en ekki sungið fyrir Íslensku óperuna fyrir brot af því sem þeir fá greitt fyrir sína vinnu erlendis.

„Íslenska óperan er nánast eini starfsvettvangurinn fyrir óperusöngvara á Íslandi, enda eina stofnunin sem fær fé úr ríkissjóði eyrnamerkt óperustarfsemi. Í krafti einokunarstöðu sinnar og aðstöðumunar hefur þessi sjálfseignarstofnun aðeins boðið söngvurum gallaða verksamninga, sem gera ákvæði sem vísa í kjarasamning við stéttarfélögin (FÍH og FÍL) að engu, eins og nýfallinn dómur hefur nú leitt í ljós. Söngvarar spyrja sig í hvaða tilgangi Íslenska óperan hafi gert þeim að undirrita samninga sem innihalda marklaus ákvæði, sem óperustjóri sjálfur telur vera úrelt. Ekki er í raun hægt að líta á samninga Íslensku óperunnar við söngvara sem annað en gerviverktöku.“

Íslenska óperan hefur aðsetur í Hörpu.

Nýta sér leynd og höggva í samstöðu söngvara

Félagsmenn segja stjórnunarhætti og stefnu Íslensku óperunnar í kjaramálum söngvara hafa leitt til þess að laun söngvara hafa lækkað að raungildi undanfarin ár. Ennfremur séu dæmi um töluverðan óútskýrðan launamun kynjanna.

„Trúnaðarákvæði eru í samningum Íslensku óperunnar við söngvara, enda hefur óperustjóri nýtt sér þá leynd og ítrekað reynt að höggva í samstöðu söngvara með ýmsum hætti. Sjá má mikla fylgni milli þess að fólk kvarti eða leiti réttar síns og þess að fá ekki aftur vinnu hjá Íslensku óperunni, eða möguleika á vinnu með fyrirsöng,“ segir Ása Fanney.

„Óperustjóri hefur einhliða breytt ákvæðum um flytjendarétt og tekið út rétt til greiðslu vegna sýninga í sjónvarpi og ennfremur bætt við ákvæðum um að söngvarar afsali sér rétti til viðbótargreiðslna vegna streymis innanlands sem utan. Um leið og þetta er gert hefur streymi sýninga Íslensku óperunnar á alþjóðlegum streymisveitum orðið að nýrri tekjulind fyrir óperuna.“

Félagsmenn Klassís telja það endurtekið hafa sýnt sig að Steinunn Birna óperustjóri og stjórn beri ekki hag óperusöngvara fyrir brjósti og lýsa því yfir fullkomnu vantrausti á bæði stjórn og óperustjóra.

Í stjórn Íslensku óperunnar sitja Pétur J. Eiríksson, formaður, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Una Steinsdóttir og Soffía Karlsdóttir.

Stjórn ÍÓ: Pétur J., fyrrverandi framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, Guðbjörg Edda, fyrrverandi forstjóri Actavis, Una, framkvæmdastjóri viðskiptabanka, Vilhjálmur H. fyrrverandi Landsréttardómari og Soffía, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi.
Fréttablaðið/Samsett mynd