„Borið hefur á því að bílstjórar auki hraðann mikið á milli hraðahindrana og taki jafnvel fram úr bifreiðum sem keyra á löglegum hraða,“ segir í bréfi stjórnar foreldrafélags Breiðagerðisskóla til Íbúaráðs Háaleitis og Bústaða vegna stórhættu sem skapast á hverjum degi við skólann og leikskólann Jörfa við Hæðargarð.

Íbúaráðið tekur heils hugar undir bréfið og hvetur ráðið skipulags- og samgönguráð borgarinnar til að taka erindið til greina hið fyrsta og beita sér fyrir auknu umferðaröryggi.

Segir í bókun ráðsins að of mikill hraði sé í götunni en í bréfinu er bent á að hámarkshraði í Hæðargarði sé 30 kílómetrar á klukkustund en gatan er notuð sem gegnumakstursleið, einkum þegar umferð er mikil á Bústaðavegi. Hafa mælingar lögreglu sýnt að um það bil helmingur ökumanna keyrir of hratt.

„Öryggi gangandi vegfarenda hlýtur að vega þyngra en hagsmunir ökumanna af því að komast örlítið hraðar á milli staða,“ segir í bréfinu. Lausnin gæti verið að bæta við hraðahindrunum og fleiri þrengingum eða jafnvel loka götunni við leikskólann Jörfa.