Ólafur Elínarson hjá Gallup segir að örar breytingar hafi á skömmum tíma orðið á hvenær kjósendur geri upp hug sinn og ákveði hvernig ráðstafa skuli atkvæðinu. Með gerjun flokkakerfisins frá árinu 2007 hafi flokkshollusta verið á hröðu undanhaldi. Sem dæmi megi nefna að í alþingiskosningum 2017 ákváðu 44 prósent Íslendinga hvaða flokk þau ætluðu að kjósa síðustu sex dagana fyrir kosningar miðað við 28 prósent árið 2007.

Fjórði hver kjósandi gerði upp hug sinn í kjörklefanum árið 2017.Mikil spenna er fyrir kosningarnar á morgun, ekki síst vegna þess hve fylgið breytist hratt og vegna áhrifa hræringanna á mögulega stjórnarmyndun. Eitt er þó könnun og annað er kosninganiðurstaða.

Ólafur segir að fylgi flokka sé á mikilli ferð og flugi, oft um nokkur prósentustig en jafnist út á lengri tímabilum. Einkum segir Ólafur að það geti verið misvísandi að lesa of mikið í litlar breytingar á stuttum tímabilum þar sem fleiri en einn flokkur komi til greina hjá tæplega helmingi kjósenda.

„Á hinn bóginn geta lengri mælingartímabil misst af ýmsum atburðum í stjórnmálum sem hafa áhrif á fylgi flokka sem vissulega er spennandi að mæla en eru mögulega ekki lýsandi fyrir framhaldið,“ segir Ólafur.

Þess vegna sé betra að mæla fylgi jafnt og stöðugt og skoða breytingar yfir lengri tíma. Það skiptir líka máli á hvaða aldri kjósendur eru þegar kemur að því að kjósa. Líkur til að mæta og kjósa aukast eftir aldri. „Ef mikill munur er á aldri þeirra sem segjast ætla að kjósa flokk í könnun og þeirra sem mæta getur það skapað skekkju milli könnunar og úrslita.“

Ólafur Elínarson hjá Gallup segir flokkshollustu á hröðu undanhaldi.

Oft hefur eldheit umræða skapast um hvort fylgiskannanir hafi áhrif á kosningahegðun. Spurður um þetta svarar Ólafur að áhrif birtingar fylgiskannana virðist stórlega ofmetin. Gallup hefur rannsakað áhrifin með tveimur spurningum sem lagðar voru voru fram í könnun 19. til 31. ágúst að frumkvæði Gallup.

Könnunin var lögð fyrir á netinu og svaraði 801 af 1.641 einstaklings úrtaki eða 51,2 prósent. Spurt var um áhrifin af birtingu fylgiskannana á hvernig svarandi kysi og hvaða áhrif svarandi teldi að birtingin hefði á annað fólk.

„Niðurstöðurnar sýna að fólk telur almennt birtingar ekki hafa áhrif á sig sjálft en 6 prósent töldu birtinguna þó hafa mikil áhrif á hvernig svarandi ætlaði að kjósa.

Aftur á móti töldu fimm sinnum fleiri, eða 31 prósent, að birting fylgiskannana hefði mikil áhrif á hvernig annað fólk kýs,“ segir Ólafur.

Þá bendir hann á að könnunum í aðdraganda kosninga beri mikið saman milli ólíkra fyrirtækja sem mæli fylgi. Það bendi til góðra vinnubragða. „Frávik undanfarinna kosninga hafa verið lítil og þau verða enn minni með góðri þátttöku fólks í könnunum. Við hvetjum Íslendinga til að taka þátt í þeim.“