Fæst sveitarfélög tryggja börnum leikskólapláss þegar þau ná tólf mánaða aldri, eftir að hefðbundnu fæðingarorlofi lýkur.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýútgefinni skýrslu BSRB um umönnunarbilið.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar eru börn á Íslandi að meðaltali 17,5 mánaða gömul þegar þau komast inn á leikskóla en mikill munur er á milli sveitarfélaga.

Bilið of langt þrátt fyrir árangur

Árið 2017 var meðalaldur barna við inngöngu í leikskóla um 20 mánuðir og því er ljóst að nokkur árangur hefur náðst en þrátt fyrir það er bil milli fæðingarorlofs og leikskóla, umönnunarbilið, enn í flestum tilfellum of langt samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar.

Þá segir jafnframt í skýrslunni að núverandi skipan leikskólamála takmarki möguleika foreldra til þátttöku á vinnumarkaði að loknu fæðingarorlofi. Þrátt fyrir að mörg sveitarfélög hafi sett sér skýr markmið vegna vandans, gripið til aðgerða og minnkað bilið umtalsvert frá árinu 2017 þá sé staða barna og foreldra enn misjöfn eftir búsetu.

Það sé afleiðing þess að ríkisvaldið hafi enn ekki gripið til neinna aðgerða til að tryggja tólf mánaða gömlum börnum leikskólapláss.

Neikvæð áhrif á jafnrétti kynjannna

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir umönnunarbilið hafa neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna þar sem konur eru líklegri til að minnka við sig vinnu en karlar eða lengja fæðingarorlof.

„Bilið veldur ungum barnafjölskyldum um allt land miklum vandræðum og oft tekjumissi þar sem margar hverjar þurfa að hagræða vinnu í marga mánuði, greiða mun hærri gjöld fyrir þjónustu dagforeldra ef sú þjónusta er á annað borð fyrir hendi eða treysta á ættingja til að annast barnið áður en að þau fá pláss á leikskóla í sínu sveitarfélagi,“ segir Sonja Ýr.

Að sögn Sonju Ýrar gerir BSRB þá kröfu að ríki og sveitarfélög grípi til aðgerða til að öllum börnum verð tryggð leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi foreldra óháð búsetu.

Rétturinn lögfestur á Alþingi

Í fréttatilkynningu frá BSRB vegna málsins kemur fram að bandalagið kalli eftir því að réttur barna til að fá leikskólapláss strax að loknu fæðingarorlofi foreldra verði lögfestur á Alþingi með tilheyrandi fjármögnun hið fyrsta.

Þannig verði barnafjölskyldum hér á landi veittur sambærilegur stuðningur og á hinum Norðurlöndunum.