Dæmi eru um að fólk sé á ferð með einkenni COVID-19. Sóttvarnayfirvöld og almannavarnir biðla til almennings að sýna varkárni, sinna sóttvörnum af kostgæfni og fara í sýnatöku finni það fyrir nokkrum einkennum. Þetta sagði Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Eitt smit greindist innanlands í gær og var sá einstaklingur í sóttkví. Fjögur smit greindust á landamærunum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að ekki væri ástæða til, þrátt fyrir hve vel gengi, að slaka á sóttvarnaaðgerðum. Hætt væri á, líkt og reynslan hefði sýnt, að möguleiki væri á bakslagi þegar vel gengi.

Rögnvaldur sagði að almenningur ætti þakkir skildar vegna samstöðu sinnar og samviskusemi í að fara að fyrirmælum yfirvalda og hegða sér í samræmi við þau. Ekki mætti láta deigan síga og færri fjöldi þeirra sem færi í sýnatöku væri áhyggjuefni. Fréttir bárust af því um helgina að nokkuð hefði verið um hópamyndanir og samkvæmi sem væri ekki í samræmi við skilaboð stjórnvalda. Þrátt fyrir að vel gengi í baráttunni við faraldurinn mætti ekki gleyma sér.

Alma D. Möller landlæknir sagði að ástandið víða um heim, einkum í nágrannalöndum, væri afar slæmt og ný afbrigði COVID-19 væru að hluta til sökudólgurinn. Af þessu tilefni áréttaði Rögnvaldur fyrir fólki að vera ekki að ferðast utan landsteinanna nema brýna nauðsyn bæri til. Ástandið væri fljótt að breytast, nýjar ferðatakmarkanir gætu gert fólki erfitt fyrir að komast aftur heim til Íslands.