Fleiri strákar en stelpur æfa íþróttir hjá öllum íþróttafélögum í Reykjavík nema hjá Glímufélaginu Ármanni.
Á fundi ofbeldisvarnarnefndar í upphafi vikunnar voru kynntar niðurstöður úttektar á þremur hverfisíþróttafélögum í Reykjavík: Íþróttafélagi Reykjavíkur (ÍR), Fram og Víkingi. Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð framkvæmdi úttektina en áður höfðu verið gerðar úttektir á Fjölni, Þrótti og Knattspyrnufélagi Reykjavíkur (KR) árið 2016 og Ármanni, Fylki og Val árið 2020. Með þessari síðustu úttekt hafa öll hverfisíþróttafélög borgarinnar verið tekin út.
Hjá flestum félögunum er hlutfall stelpna um 30-40 prósent og hlutfall stráka á bilinu 60-70 prósent. Hlutfall stráka er hæst hjá Þrótti, 69 prósent, og Fram, 68 prósent.

Þar sem í boði er að æfa fimleika er hlutfall stúlkna hærra en þar sem það er ekki í boði. Í Ármanni eru stelpur 58 prósent allra iðkenda. Þar eru langflestir iðkendur í fimleikum og koma úr ýmsum hverfum borgarinnar samkvæmt úttektinni.
66 prósent þeirra sem æfa fimleika hjá Ármanni eru stúlkur á aldrinum 8-14 ára en þegar litið er til stúlkna á aldrinum 8-20 ára er hlutfallið 75 prósent.
Hjá Fylki er knattspyrnudeildin langfjölmennasta deild félagsins og þar eru strákar í miklum meirihluta, 66 prósent. Í fimleikadeildinni, sem er næstfjölmennasta deildin, snúast hlutföllin við og þar eru stelpur 64 prósent iðkenda.
Hjá ríkjandi Íslands- og bikarmeisturum karla í fótbolta, Víkingi, eru 64 prósent allra iðkenda á aldrinum 6-17 ára karlkyns. Hjá ÍR er hlutfallið 65 prósent strákar á móti 35 prósentum stelpna og í Fram eru 32 prósent iðkenda stelpur og 68 prósent eru strákar.
Í úttektinni sem kynnt var á fundi ofbeldisvarnarnefndar í vikunni og nær til Víkings, ÍR og Fram, segir að æfingatímar, æfingamagn og æfingaaðstaða sé sambærileg hjá öllum félögunum fyrir stúlkur og drengi. Óljóst sé hvort dreifing fjármagns sé með réttlátum hætti.
Öll félögin séu með jafnréttisstefnu og aðgerðaáætlun sem byggi á sniðmáti frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur en stefnurnar mættu vera sýnilegri á heimasíðum félaganna, segir þar einnig. Þá eru félögin öll með siðareglur og kalla öll eftir sakavottorði við ráðningar, sem í úttektinni segir að sé nýtt verklag. Einnig eru settar fram tillögur að úrbótum hjá félögunum, til að mynda að jafnréttisstefnur séu virkar, að greina skuli og taka á kynbundnum launamun og unnið sé gegn staðalímyndum.