Fyrirtækið Apple hefur glímt við miklar tafir á vörusendingum í kjölfar sóttvarnareglna og mótmælaöldunnar í Kína seinustu daga. Samkvæmt markaðsgreiningu Counterpoint Research var meðalbiðtími í nóvember eftir nýjum iPhone 14 Pro 37 dagar. Í samanburði var biðtími eftir iPhone 13 Pro í kringum 15 dagar.

Meðalbiðtími eftir nýjum iPhone 14 Pro síma fyrir hátíðirnar er nú kominn í fimm vikur. Margir viðskiptavinir sem panta sér símann í gegnum netverslanir Apple munu þar með ekki fá símana sína afhenta fyrr en um miðjan janúar.

Upprunaleg áætlun verksmiðjunnar á fjórða ársfjórðungi var að afhenda í kringum 80 til 85 milljónir iPhone-síma en sökum núverandi ástands mun sú tala að öllum líkindum lækka niður í 70 til 75 milljónir.

Raftækjaframleiðandinn Foxconn setur saman alla iPhone-síma fyrir Apple og er aðalverksmiðja þeirra staðsett í Zhengzhou í Kína. Í verksmiðjunni starfa 200 þúsund manns og framleiðir hún um 50 til 60 prósent af öllum iPhone-vörum í heiminum. Harðar sóttvarna­aðgerðir og núllstefna kínverskra yfirvalda í baráttunni við Covid-19 síðastliðna mánuði hefur haft mikil áhrif á framleiðslugetu verksmiðjunnar.

Fréttablaðið/Graphic News

Mótmæli brutust einnig út í síðustu viku í verksmiðjunni en mótmæli hafa verið áberandi í Kína undanfarna daga. Í myndböndum sem dreift var á samfélagsmiðlum mátti sjá verkamenn kvarta yfir lágum launum og hreinlætisaðstöðu á vinnustað.

Kínverskir ríkisfjölmiðlar greindu frá því að verksmiðjan hefði nýlega ráðið 100 þúsund starfsmenn en margir verkamenn flúðu verksmiðjuna þegar henni var skyndilega lokað í október eftir að upp komst um Covid-smit. Yfirmenn reyndu að halda sem flestum starfsmönnum og lofuðu meðal annars að fjórfalda bónusgreiðslur verkamanna.

Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri Elko, segir að raftækjaverslunin fái sendingar af iPhone 14 símum fyrir jólin, en líklegast ekki í því magni sem pantað var. Ekki var búið að staðfesta ástæðuna fyrir skortinum frá birgja en hann telur að ástandið í Kína sé líkleg skýring.

„Við erum almennt ekki að upplifa neinn skort á raftækjum og erum vel birg fyrir jólaverslunina. Þrátt fyrir að birgðastaðan af iPhone-símum sé ekki alveg í takt við pantanir þá erum við með fínar birgðir af öðrum Apple-vörum og þar á meðal AirPods,“ segir Arinbjörn.