Enn fækkar inniliggjandi sjúklingum með Covid-19 á Landspítala og voru þeir í gær 35 talsins. Á föstudag lágu 39 sjúklingar með Covid á spítalanum og fyrir viku voru þeir 60.

Af þeim 35 sem lágu inni á Landspítala með Covid í gær voru tveir á gjörgæslu, báðir í öndunarvél. Meðalaldur sjúklinganna var 73 ár en þann 2. apríl lést kona á áttræðisaldri með Covid-19 á spítalanum.

Landspítali hefur beint því til sjúklinga með Covid-19 að hringja ekki á deildir spítalans í leit að upplýsingum vegna viðbragða við sjúkdómnum.

Fólki sem vantar upplýsingar eða þarf á læknisaðstoð að halda er bent á heilsugæsluna í síma 513-1700, Læknavaktina í síma 1700 eða netspjall Heilsuveru.