Borgara­legum vígslum hefur fjölgað mikið frá síðustu alda­mótum og voru ríf­lega þriðjungur, eða 37 prósent, af öllum hjóna­vígslum árið 2020 þegar þær voru 677 talsins saman­borið við 259 (14,6 prósent) árið 2000. Alls voru þær 1.831 árið 2010 saman­borið við 2.075 árið 2019.

Frá þessu er greint á vef Hag­stofunnar en þar voru í dag birtar nýjar upp­lýsingar um hjóna­vígslur á Ís­landi.

Þar kemur fram að fjöldi hjóna­vígslna sé nokkuð breyti­legur frá ári til árs og að þrátt fyrir að þeim hafi fækkað veru­lega, eða um 14 prósent, á milli áranna 2019 og 2020 þá sé ekki hægt að draga þá á­lyktun að það sé vegna heims­far­aldursins vegna þess að fjöldinn hafi al­mennt séð verið mjög breyti­legur.

Ég vil skella skuldinni al­farið á Co­vid.

„Fyrir Co­vid reiknuðum við með því að 2020 yrði al­ger sprengja. Það voru allir að fara að gifta sig en svo varð það alls ekki og það varð hálf­gert hrun. Núna er allt komið á fleygi­ferð aftur. Septem­ber var ein stærsti mánuðurinn okkar í at­höfnum frá upp­hafi,“ segir Sig­geir F. Ævars­son, fram­kvæmda­stjóri Sið­menntar.

Hann segir að hann sé ekki alveg sam­mála full­yrðingum Hag­stofunnar og að hann vilji skella skuldinni al­farið á Co­vid-19 þegar kemur að fækkun hjóna­vígsla í fyrra.

„Ég vil skella skuldinni al­farið á Co­vid. Það var alltaf aukning hjá okkur og hluti af því var er­lend pör sem komu hingað bara til að gifta sig. Það datt alveg niður en sam­hliða hverri af­léttingu þá kemur bylgja af fólki sem vill gifta sig á Ís­landi,“ segir Sig­geir en hlut­fall er­lendra giftinga hefur verið um helmingur allra giftinga hjá Sið­mennt, utan árið 2020, þegar hlut­fallið var 21 prósent.

Árið 2018 voru giftingar Sið­menntar 248, árið 2019 voru þær 244, árið 2020 að­eins 135 og það sem af er þessu ári hafa þær verið 170.

Vilja auka þjónustu

Hann segir að þau hafi verið í start­holunum í byrjun árs 2020 að fjölga at­hafna­stjórum til að anna eftir­spurn en að því hafi verið slegið á frest. Núna eru þau að skoða að fjölga þeim og þá sér­stak­lega utan höfuð­borgar­svæðisins. Auk þess sem þau vilja bæta við at­hafna­stjórum sem tala þau tungu­mál sem töluð eru á Ís­landi, eins og pólsku­mælandi fólki.
„Við stefnum á nám­skeið eftir ára­mót og við viljum endi­lega fjölga í hópnum. Við viljum geta þjónu­stað lands­byggðina betur auk þess sem við erum mjög spennt fyrir því að fá pólsku­mælandi at­hafna­stjóra með okkur í lið,“ segir Sig­geir.

Ég held að 2022 verði stóra árið sem 2020 var ekki

Á vef Hag­stofunnar kemur einnig fram að tíðasti aldur, meðal­aldur og mið­aldur við hjú­skap hefur hækkað hjá bæði konum og körlum en árið 2001 var tíðasti aldur brúð­guma 27 ára og brúða 28 ára. Árið 2020 var meðal­aldur brúð­guma 32 ár og brúða 30 ár. Meðal­aldur karla við upp­haf hjú­skapar er venju­lega um tveimur árum hærri en kvenna.

Hvað varðar þetta segir Sig­geir að hann hafi ekki rýnt í gögnin þeirra en að hans upp­lifun sé að fólkið sem nýtir þeirra þjónustu sé á öllum aldri.

„Það er bæði eldra fólk, sem er kannski ekki að gifta sig í fyrsta sinn, og ungt fólk. Svo er tals­vert af fólki sem af ó­líkum upp­runa, eins og þau sem eiga maka frá Banda­ríkjunum og mega ekki taka makann með nema þau séu gift,“ segir Sig­geir.

Hann segir að septem­ber og októ­ber séu báðir stórir mánuðir hjá þeim og á von á því að það haldi svo­leiðis á­fram í ár og á næsta ári.

„Ég held að 2022 verði stóra árið sem 2020 var ekki.“

Hann segir að eitt sem hefur breyst í far­aldrinum er að fólk bíður lengur með að bóka og er jafn­vel að hringja með mjög stuttum fyrir­vara.

„Það hringdi kona um daginn og sagði „Ég á af­mæli í dag, heldurðu að ég gæti gift mig?“ og ég sagði já ef hún væri með pappírana. Sem hún græjaði. Þegar ég hringdi og sagði að þau gætu komið á skrif­stofuna, sem er í Skip­holti, sagði konan „Já, við erum að borða á Pítunni og komum svo“,“ segir Sig­geir, hlær og bætir því við að rómantíkin sé sannar­lega alls konar.