Heimsóknum á bráðamótttöku Landspítalans í Fossvogi hefur fækkað mikið undanfarnar vikur en fjöldi innlagna hefur haldist í stað.

„Við höfum ekki orðið vör við holskeflu af tilvikum þar sem alvarlega veikt fólk veigrar sér við að koma til okkar,“ segir Helga Rósa Másdóttir, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri bráðamóttöku. Sjúklingar leita í meiri mæli fyrst til heilsugæslunnar. „Þar hafa verið unnin þrekvirki, ekki bara í sýnatöku og viðbrögðum við COVID-19 faraldrinum, heldur líka í að létta álaginu af spítalanum,“ segir hún.

Fækkun heimsókna skrifast líka á þá staðreynd að tilmæli sóttvarnalæknis um samkomubann og samskiptafjarlægð hafa einnig áhrif á aðra hefðbundnari smitsjúkdóma. „Þessi tilmæli fækka tilfellum af inflúensu og nóróveirunni svo eitthvað sé nefnt. Fólk er minna á ferli og því verða færri slys,“ segir Helga Rósa.

Það hefur gefið bráðamóttökunni svigrúm til þess að ráðast í endurskipulagningu húsnæðisins og starfseminnar vegna faraldursins. „Þetta hefur skipt miklu máli því við höfum getað undirbúið okkur vel undir faraldurinn.“

Helga Rósa segir að ekki sé áberandi munur á fjölda skráðra tilfella um heimilisofbeldi en það segi þó ekki alla söguna. „Áverkar vegna ofbeldisins geta verið faldir og því höfum við reynt að uppfræða starfsfólk um einkenni slíkra brota til að auka árvekni okkar fólks.“

Starfsfólk bráðamóttöku verði þó vart við að aukin harka sé að færast í undirheimana. „Það er okkar tilfinning. Að ofbeldisbrotum sé að fjölga og harkan sé að aukast,“ segir Helga Rósa.