„Samkvæmt talningu var fimmtíu prósenta samdráttur á farþegum í síðustu viku, við eigum von á enn meiri samdrætti fyrir þessa viku, sama á við um tekjurnar,“ segir Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. Frá og með næsta þriðjudegi munu strætisvagnar höfuðborgarsvæðisins aka samkvæmt laugardagsáætlun, fyrir utan að vagnarnir byrja að ganga fyrr og með tíðari ferðir á morgnana.

Um helgina verður næturakstri úr miðbænum hætt. Biðstöðvatöflum á stoppistöðvunum verður ekki breytt og eru farþegar beðnir um að skoða áætlaða tíma á heimasíðu Strætó eða í Strætó appinu.

Jóhannes segir að líkt og með fjölda annarra fyrirtækja þá muni ástandið hafa mjög slæm áhrif á afkomuna. „Framlög dekka um 70 prósent af kostnaðinum, en við erum að grípa til þessara aðgerða vegna þess að tekjur sem hafa verið í kringum tveir milljarðar á ári eru horfnar núna að mestu.“

Sambærileg fækkun hefur verið á hinum Norðurlöndunum. Ekki hefur komið til tals að hætta með einstaka leiðir, en nokkrar minni leiðir sem keyra ekki um helgar falla út. Jóhannes á ekki von á að grípa þurfi til uppsagna. „Tímalengd á þessum faraldri hefur áhrif á það hvaða ákvarðanir verða teknar, nú erum við að verja störf eins mikið og við getum.“

Frá síðasta mánudegi hafa farþegar notað aftari dyr til að forðast návígi við vagnstjóra. Nokkrir starfsmenn Strætó eru í sóttkví og einhverjir fastir erlendis. Einn starfsmaður á verkstæði er smitaður og í einangrun. „Hann smitaðist í gegnum konuna sína. Hann var að vinna um helgina með öðrum sem er nú kominn í sóttkví. Þetta hefur ekki haft nein víðtæk áhrif á okkur.“

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur umferðin á höfuðborgarsvæðinu í mars dregist saman um 15,4 prósent. Af þremur stöðum þar sem Vegagerðin mælir umferð á höfuðborgarsvæðinu er samdrátturinn mestur á Hafnarfjarðarvegi, 21 prósent milli ára, 13 prósenta samdráttur er á Reykjanesbraut og 12,6 á Vesturlandsvegi.

Ferðum fyrir fatlaða hjá Strætó á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað úr rúmlega 2.000 á dag niður í 400.

Í mars hefur umferð á hringveginum dregist saman um 20 til 25 prósent, 42 prósent á Mývatnsöræfum og Mýrdalssandi, 23 í Hvalfjarðargöngum, 27 við Hafnarfjall og um 35 prósent á Holtavörðuheiði.

Ferðum landsbyggðavagna Strætó mun ekki fækka nema í samráði við Vegagerðina, en þar hefur farþegum einnig fækkað töluvert.

Samdráttur í bensínsölu

Sala á bensíni hefur dregist verulega saman á höfuðborgarsvæðinu og öllu suðvesturhorninu. Nokkuð minni samdráttur er á eldsneytissölu á Norður- og Austurlandi.

„Við erum að sjá samdrátt í sölunni í takt við minnkun á umferð og ekki útséð með að samdráttur muni aukast enn frekar í apríl í ljósi aðstæðna,“ segir Rakel Björg Guðmundsdóttir, markaðs- og þjónustustjóri Atlantsolíu.