Við höfum fundið fyrir auknum áhuga og það er greinilega að aukast að fólk langi í hund,“ segir Herdís Hallmarsdóttir, formaður Hundaræktarfélags Íslands, en Fréttablaðið hefur undanfarið fengið fjölda ábendinga um að hundaskortur ríki hér á landi. „Það virðast allir finna fyrir þessum aukna áhuga, bæði er hringt meira til okkar og spurst fyrir og ræktendur tala um aukinn fjölda fyrirspurna um hvolpa,“ segir Herdís.

„Vinsælustu tegundirnar sem við fáum spurningar um þessa dagana eru þessar „flatnefja tegundir“. Annars koma oft fyrirspurnir um labrador, cavalier, miniature schnauzer, íslenskan fjárhund og golden retriever,“ bætir hún við.

Á Facebook má finna fjölda hópa þar sem fram fer umræða um hunda, en einnig þar sem fram fer sala á hundum og hvolpum. Til að mynda hóparnir Hvolpar til sölu, þar sem meðlimir eru tæplega tuttugu þúsund og HRFÍ hvolpar til sölu, sem telur um fjórtán þúsund meðlimi. Í báðum þessum hópum má sjá fjölda fyrirspurna um hvolpa til sölu og væntanleg got, en erfitt virðist vera að anna eftirspurninni sem til staðar er.

Samkvæmt upplýsingum frá Hundaræktarfélagi Íslands voru nýskráðir hvolpar frá upphafi þessa árs til síðustu mánaðamóta 1053 talsins og fæddust þeir í 235 gotum. Flestir voru af labrador-kyni, 170 talsins, og því næst miniature schnauzer, 121 hvolpur.

Herdís segir það ekki endilega neikvætt að eftirspurn eftir hundum og hvolpum sé meiri en framboðið. „Fókus ræktanda á ekki að vera á það að anna eftirspurn heldur á heilbrigði,“ útskýrir hún. „Við ræktun þarf að gæta að því grundvallarmarkmiði að rækta heilbrigða hunda með gott og dæmigert skap,“ bætir hún við.

Spurð hvort biðlistar séu eftir hundum segir Herdís að það að fá sér hund sé ekki eins og að kaupa sér nýjan hlut. „Þetta er ekki fyrstur kemur, fyrstu fær, eða eins og að fara í röð úti í búð,“ segir hún.

„Það er stór ákvörðun að fá sér hvolp og félagið vill biðla til fólks sem er í slíkum hugleiðingum að gefa sér góðan tíma til að kynna sér þær fjölmörgu tegundir sem til eru og spyrja sig hvort hundakynið henti þeim aðstæðum sem viðkomandi getur boðið hundinum upp á,“ segir Herdís.

Þá segir hún ræktendur velja vel heimili fyrir hvern hvolp og því sé mikilvægt að veita sem mestar upplýsingar þegar sóst er eftir því að fá hvolp. „Ræktendur eru að para saman einstaklinga og hunda svo því markvissari, upplýstari og fókuseraðri sem fyrirspurnir einstaklinga eru, því líklegri eru þeir til að vera rétti aðilinn.“