Færst hefur í aukana að einstaklingar skrái sinn hinsta vilja varðandi útfarir hjá Útfararstofu kirkjugarðanna. Á heimasíðu Útfararstofunnar má nálgast eyðublað þar sem hægt er að fylla inn óskir varðandi athöfnina sjálfa, hvort óskað sé eftir bálför eða jarðarför, hverskonar kistu og skreytingar viðkomandi vil og hvort viðkomandi vilji klæðast eigin fatnaði eða líkklæðum svo.

Upplýsingarnar eru varðveittar hjá Útfararstofu kirkjugarðanna og verða svo aðgengilegar nánustu aðstandendum þegar viðkomandi einstaklingur deyr. Guðný Hildur Kristinsdóttir, framkvæmdarstjóri Útfararstofu kirkjugarðanna segir viljayfirlýsinguna geta létt nánustu ættingjum undirbúning útfararinnar.

Guðný Hildur Kristinsdóttir, framkvæmdarstjóri Útfararstofu kirkjugarðanna
Mynd/Aðsend

Hjálplegt fyrir aðstandendur

„Það getur verið mjög hjálplegt fyrir aðstandendur að vita hvað sá sem þau hafa misst vildi og þetta getur jafnvel orðið til þess að forðast ýmis ágreiningsefni,“ segir Guðný. „Svo er misjafnt hversu miklar upplýsingar fólk skilur eftir, sumir taka bara fram hvort þau vilji bálför eða greftrun á meðan aðrir eru búnir að útfæra alla útförina,“ bætir hún við.

„Það er einnig algengt að einstaklingar komi til okkar við undirbúning útfarar og segi okkur fá því hvað sá eða sú sem þau hafi misst hafi viljað varðandi útför þó að það hafi ekki verið skráð niður. Það virðist aðeins vera að opnast á þessa umræðu um dauðann í samfélaginu,“ segir Guðný.

Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, prestur á Líknardeild Landspítala, tekur undir orði Guðnýjar og segir að sem betur fer sé umræðan um dauðann að aukast og að fólk hafi leyfi til þess að tjá óskir sínar varðandi útfarir og aðra þætti honum tengda.

Guðlaug Helga segir að sjúklingar á Líknardeildinni séu hvattir til að ræða um dauðann.

Getur veitt fólki létti að ræða dauðann

Á Líknardeildinni segir Guðlaug Helga að sjúklingar séu hvattir til þess að ræða dauðann og það sem fram undan sé við sína nánustu. Sumir kjósi að fá aðstoð frá Guðlaugu Helgu við það að hefja samtalið en aðrir geri það að eigin frumkvæði.

„Þegar fólk svo leyfir sér að stíga þetta skref þá upplifir það oft mikinn létti,“ segir Guðlaug Helga. Hún segir aðstandendur þeirra sem standa frammi fyrir dauðanum marga hafa hugann við það sem framundan er, því geti verið gott að ræða næstu skref.

„Það getur verið mjög hjálplegt fyrir aðstandendur að vita hvað viðkomandi vill varðandi útför og aðra praktíska hluti en ekki síður að eiga samtalið um þetta við sinn veika aðstandenda því dauðinn er jú hluti af lífinu,“ segir Guðlaug Helga.