Maður sem handtekinn var laust fyrir klukkan sjö í morgun grunaður um ölvunarakstur sinnti ekki stöðvunarskyldu lögreglu og lagði bílnum við íbúðarhúsnæði. Þegar bílnum var lagt færði maðurinn sig í aftursæti bílsins og neitaði að stíga út úr bílnum. Maðurinn var færður á lögreglustöð og er laus eftir sýnatöku lögreglu. Tveir til viðbótar voru stöðvaðir vegna gruns um áfengis- eða fíkniefnaaksturs.

Þá var tilkynnt um líkamsárás á Ingólfstorgi í miðbæ Reykjavíkur klukkan hálf sex í morgun. Maður var kýldur og hlaut hann áverka á höfði og var við skerta meðvitund. Maðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar en sá sem veittist að honum var á bak og burt þegar lögreglumenn komu á vettvang og er málið til rannsóknar.

Jafnframt var maður grunaður um eignaspjöll og líkamsárás í Hafnarfirði. Maðurinn hafði kastað grjóti í svalahurð íbúðar á jarðhæð, brotið glugga og grjótið lent í gesti sem var þar innan dyra. Maðurinn er vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins og ekki er vitað um meiðsli þess sem fékk grjótið í sig.

Óskað var eftir aðstoð lögreglu í Garðabæ þar sem farþegi neitaði að greiða leigubílstjóra fargjald. Leystist málið þegar lögreglan mætti. Einnig voru afskipti höfð af manni í miðborginni vegna vörslu fíkniefna, og maður tekinn á 107 kílómetra hraða í Ártúnsbrekku, en þar er 80 kílómetra hámarkshraði.