Kórónu­veiru­smitum hefur fjölgað síðustu daga í Fær­eyjum. 92 smit hafa greinst síðustu tólf daga í Fær­eyjum. Bara í gær greindust 23 smit, að því er fram kemur á fær­eyska frétta­miðlinum KVF.

„Staðan er al­var­leg,“ hefur miðillinn eftir land­lækni Fær­eyinga, Lars Fodga­ard Møller. Hann leggur á­herslu á að bólu­setning sé leið Fær­eyinga út úr far­aldrinum.

46 prósent Fær­eyinga hafa nú verið full­bólu­settir gegn veirunni. 61 prósent hafa fengið fyrri sprautu sam­kvæmt frétt fær­eyska miðilsins. Til saman­burðar eru 81,2 prósent Ís­lendinga nú full­bólu­settir gegn veirunni.

Fær­eyingum gekk framan af afar vel í bar­áttunni gegn veirunni. Í maí síðast­liðnum greindust hins­vegar hóp­smit í landinu en allar götur fram að því hafði ekkert smit greinst á eyjunum. Þá fór sótt­varna­læknir og fær­eysk heil­brigðis­yfir­völd ó­hefð­bundnar leiðir við að minna á smit­hættuna af veirunni og birtu meðal annars rapp­mynd­bönd.

Í við­talinu hvatti Lars Fær­eyinga til að verða sér úti um bólu­setningu. Eina leiðin út úr far­aldrinum séu bólu­setningar. Færeyingar hafa fengið 57 þúsund bóluefnaskammta og segir Lars að þegar 84 þúsund skammtar hafi verið gefnir af fyrri og seinni sprautu náist hjarðónæmi.

„Því fyrr sem við náum hjarðó­næmi því minni verður mögu­leikinn á stórum hóp­sýkingum og þá getum við fengið venju­legt líf hér í sam­fé­laginu aftur. Því vil ég hvetja fólk til þess að láta bólu­setja sig sem fyrst,“ segir land­læknir Fær­eyinga.