Sjávarútvegsráðherra Færeyja, Árni Skaale, segir að færeyska þjóðin ætli sér ekki að slíta samstarfinu við Rússa í fiskveiðum þrátt fyrir viðskiptaþvinganir annarra Evrópuríkja í garð Rússa eftir að innrásin í Úkraínu hófst.

„Þetta er eina úrlausnin í stöðunni fyrir Færeyjar og ég er ánægður að allir stjórnmálaflokkarnir séu sammála um það nema einn,“ sagði Árni í samtali við danska ríkisfjölmiðilinn DR.

Samkomulagið hefur verið til staðar í að verða fimmtíu ár og gerir Færeyingum kleift að veiða þorsk í Barentshaf í skiptum fyrir að Rússar fái að veiða kolmuna í landhelgi Færeyinga.

Framundan eru viðræður milli Rússa og Færeyinga um áframhaldandi samkomulag og vilja Færeyingar ekki slíta því samstarfi.

Frá því að Rússar hófu innrásina í Úkraínu í upphafi árs hafa Evrópuþjóðir reynt að beita Rússland ýmsum þvingunum. Ein þeirra er að slíta viðskiptasambandi en það nær ekki til matvælaviðskipta.

Í sömu grein lýsir Jens Ladefoged Mortesen, prófessor í viðskiptafræði við Háskólann í Kaupmannahöfn, áhyggjum þar sem ákvörðun Færeyinga sé óvænt og gæti leitt til ósættis innan Evrópu.

„Þetta er ekki brot á neinum lögum, en þetta er í þversögn við áherslur Evrópu og með því áherslur sem Færeyjar er hluti af sem Evrópuþjóð. Í ljósi ástandsins í Úkraínu skiptir miklu máli fyrir Evrópuþjóðir og Vesturlöndin að vera samstíga í garð Rússa.“