Dóm­stóll Fær­eyja sýknaði í dag 26 ára mann sem á­kærður var fyrir að myrða 16 ára gamla stúlku. Maðurinn hefur setið í fangelsi frá því í júlí 2013 fyrir aðra á­kæru en hann verður látinn laus eftir um það bil viku.

Í frétt fær­eyska Kring­varpsins er sagt frá því að þeir sem við­staddir voru réttar­höldin hafi brostið í grát er dómurinn var kveðinn upp í morgun.

Á­kæru­valdið hafði á­kært manninn fyrir að hafa drepið hina sex­tán ára gömlu Mariu Fuglø Christian­sen með því að hrinda henni út í sjó og yfir­gefa hana svo þannig að hún drukknaði.

Maðurinn hafði lýst yfir sak­leysi sínu en viður­kenndi að hafa hitt stúlkuna, sem hann hafði áður átt í sam­bandi með, í kringum 2:30 að­fara­nótt 20. nóvember 2012 og rætt við hana stutt­lega áður en leiðir þeirra skildu. Lýst var eftir stúlkunni síðar sama dag og fannst hún látin að morgni 21. nóvember.

Sam­kvæmt krufningu lést stúlkan af völdum drukknunar en ekki var talið að neitt glæp­sam­legt hafi átt sér stað.

Sakamálarannsókn hófst vegna annarrar árásar

Síðar var maðurinn hand­tekinn í tengslum við annað mál og dæmdur fyrir líkams­á­rás og til­raun til mann­dráps í júlí 2013. Það leiddi til þess að byrjað var að rann­saka mál stúlkunnar sem mögu­legt saka­mál.

Lög­regla hætti rann­sókn málsins í mars 2017 á grund­velli þess að engar vís­bendingar voru til þess að eitt­hvað glæp­sam­legt hefði átt sér stað en tóku rann­sóknina aftur upp í desember sama ár eftir að fjöl­skylda stúlkunnar kærði úr­skurðinn til ríkis­sak­sóknara.

Eftir ítar­lega rann­sókn þar sem 51 vitni var yfir­heyrt var það niðurstaða dómsins að sýkna bæri manninn af morðákærunni.