Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir daginn framan af hafa verið frekar rólegan þrátt fyrir afleitt veður víðast hvar á landinu. Verkefnin hafi verið fjölbreytt.
„Færðin fyrir austan var heldur slæm, eins og á Egilsstöðum. Þar var óskað eftir aðstoð björgunarsveita við að koma hádegismatnum inn á hjúkrunarheimili og koma einhverjum heilbrigðisstarfsmönnum í vinnuna, auk þess að aðstoða við sjúkraflutninga. En að öðru leyti var dagurinn frekar rólegur,“ segir Jón Þór.
Að sögn Jón Þórs var gærdagurinn þó heldur erfiðari, þá sérstaklega í Mýrdalnum. Þar hafi verið þreifandi blindbylur og afar slæmt skyggni.
„Seint í gærdag og fram á kvöld var nánast ekkert skyggni, en björgunarsveitin Víkverji fór í útkall vegna ferðamanna sem höfðu farið í göngutúr niður í Reynisfjöru og rötuðu ekki til baka á hótelið sem þau gistu á. Veðrið var þannig að björgunarsveitir áttu talsvert erfitt með að komast þarna niður eftir og aðstæður til leitar voru slæmar,“ segir Jón Þór.


Þegar líða fór á daginn hafi björgunarsveitin fengið liðsauka björgunarsveita frá Selfossi, Hvolsvelli og Hellu til þess að leita að fólkinu.
„Undir kvöld var svo sendur liðsauki frá Reykjavík með snjóbíla, en þeim var snúið við þegar fólkið komst inn á hótel af sjálfsdáðum heldur köld,“ segir Jón Þór.
Þá hafi björgunarsveitin einnig aðstoðað talsverðan fjölda ferðamanna sem hafði fest bíla sína við Reynisfjall.
„Það var talsvert af bílum sem sátu fastir í brekkunni upp að Reynisfjalli sem er kölluð Gatnabrún, en það er það svæði sem var erfiðast í gærdag og gærkvöld,“ segir Jón Þór.
Jón Þór segir að megnið af því fólki sem björgunarsveitir hafi aðstoðað í gær séu erlendir ferðamenn. Mikilvægt sé að ferðaþjónustuaðilar passi upp á gestina sína.
„Í þessu tilliti er mikilvægt að þeir sem reka gistiheimili og hótel passi svolítið upp á gestina sína. Að gestirnir séu meðvitaðir um aðstæður áður en þeir fara og það kannski dragi úr því að þeir fari út í einhverja óvissu. Erlendir ferðamenn gera sér ekki grein fyrir aðstæðum og hafa jafnvel aldrei upplifað slíkt áður,“ segir Jón Þór.
Hér fyrir neðan má sjá myndbönd af aðstæðum í Mýrdal í gærkvöldi. Eins og sjá má var skyggni afar slæmt og hafði fjöldi fólks fest bíla sína í brekkunni upp að Reynisfjalli.