Jón Þór Víg­lunds­son, upp­lýsinga­full­trúi Slysa­varna­fé­lagsins Lands­bjargar, segir daginn framan af hafa verið frekar ró­legan þrátt fyrir af­leitt veður víðast hvar á landinu. Verk­efnin hafi verið fjöl­breytt.

„Færðin fyrir austan var heldur slæm, eins og á Egils­stöðum. Þar var óskað eftir að­stoð björgunar­sveita við að koma há­degis­matnum inn á hjúkrunar­heimili og koma ein­hverjum heil­brigðis­starfs­mönnum í vinnuna, auk þess að að­stoða við sjúkra­flutninga. En að öðru leyti var dagurinn frekar ró­legur,“ segir Jón Þór.

Að sögn Jón Þórs var gær­dagurinn þó heldur erfiðari, þá sér­stak­lega í Mýr­dalnum. Þar hafi verið þreifandi blind­bylur og afar slæmt skyggni.

„Seint í gær­dag og fram á kvöld var nánast ekkert skyggni, en björgunar­sveitin Vík­verji fór í út­kall vegna ferða­manna sem höfðu farið í göngu­túr niður í Reynis­fjöru og rötuðu ekki til baka á hótelið sem þau gistu á. Veðrið var þannig að björgunar­sveitir áttu tals­vert erfitt með að komast þarna niður eftir og að­stæður til leitar voru slæmar,“ segir Jón Þór.

Eins og sjá má var skyggni mjög slæmt í Mýrdal í gærdag og gærkvöld.
Fréttablaðið/Slysavarnafélagið Landsbjörg
Fjöldi bíla sátu fastir í brekkunni upp að Reynisfjalli.
Fréttablaðið/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Þegar líða fór á daginn hafi björgunar­sveitin fengið liðs­auka björgunar­sveita frá Sel­fossi, Hvols­velli og Hellu til þess að leita að fólkinu.

„Undir kvöld var svo sendur liðs­auki frá Reykja­vík með snjó­bíla, en þeim var snúið við þegar fólkið komst inn á hótel af sjálfs­dáðum heldur köld,“ segir Jón Þór.

Þá hafi björgunar­sveitin einnig að­stoðað tals­verðan fjölda ferða­manna sem hafði fest bíla sína við Reynis­fjall.

„Það var tals­vert af bílum sem sátu fastir í brekkunni upp að Reynis­fjalli sem er kölluð Gatna­brún, en það er það svæði sem var erfiðast í gær­dag og gær­kvöld,“ segir Jón Þór.

Jón Þór segir að megnið af því fólki sem björgunar­sveitir hafi að­stoðað í gær séu er­lendir ferða­menn. Mikil­vægt sé að ferða­þjónustu­aðilar passi upp á gestina sína.

„Í þessu til­liti er mikil­vægt að þeir sem reka gisti­heimili og hótel passi svo­lítið upp á gestina sína. Að gestirnir séu með­vitaðir um að­stæður áður en þeir fara og það kannski dragi úr því að þeir fari út í ein­hverja ó­vissu. Er­lendir ferða­menn gera sér ekki grein fyrir að­stæðum og hafa jafn­vel aldrei upp­lifað slíkt áður,“ segir Jón Þór.

Hér fyrir neðan má sjá myndbönd af aðstæðum í Mýrdal í gærkvöldi. Eins og sjá má var skyggni afar slæmt og hafði fjöldi fólks fest bíla sína í brekkunni upp að Reynisfjalli.