Land­spítali hefur á­kveðið að færa við­búnaðar­stig spítalans úr ó­vissu­stigi yfir á hættu­stig vegna fjölda smita síðustu daga en alls greindust tíu ný smit í gær og heildar­fjöldi virkra smita því orðinn 39. Líkt og greint var frá fyrr í dag er það mat far­sóttar­nefndar spítalans að sýkingin sé út­breiddari í sam­fé­laginu en opin­ber gögn beri vitni og voru reglur um að­gengi á spítalanum hertar vegna þessa í dag.

Allir í viðbragðsstöðu

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðamaður forstjóra Landspítala, segir að það hafi verið fyrirfram ákveðið að hækka viðbúnaðarstig upp í hættustig við innlögn í sumar. „Við erum að funda mjög oft, viðbragðsstjórn og farsóttanefnd spítalans, og bregðast við því sem upp kemur á hverjum tíma,“ segir Anna í samtali við Fréttablaðið.

„Þetta er breyting á starfseminni hjá okkur og það hefst á morgun hjá okkur eins og öðrum. Hættustigið skiptir okkur máli til þess að koma öllum í bátana,“ segir Anna. Hún bætir við að allir séu nú í viðbragðsstöðu. „Við verðum að þessu þar til að við sjáum fram að þetta er yfirstaðið.“

Ekki stendur til að hækka viðbúnaðarstig umfram hættustig þar sem það gerðist ekki í fyrri bylgjunni en til þess að það yrði hækkað upp í hæsta stigið, neyðarstig, þyrfti það að gerast að spítalinn ráði ekki lengur við faraldurinn. „Ég á ekki von á því að við þurfum að gera það núna.“

Vinna að útfærslu tilmæla heilbrigðisráðherra

Svan­dís Svavars­dóttir kynnti hertar að­gerðir á blaða­manna­fundi ríkis­stjórnarinnar í dag en helstu breytingarnar eru þær að fjölda­tak­markanir miðist við 100 manns og tveggja metra reglan verði skylda á ný.

Þá verða einnig hertar að­gerðir á landa­mærum þar sem fólk sem kemur til landsins frá á­hættu­svæðum þurfi að fara í tvö­falda sýna­töku, það er eina við komuna til landsins og aðra fjórum til sex dögum síðar.

Að því er kemur fram í til­kynningu frá spítalanum er unnið að undir­búningi að út­færslu þeirra til­mæla sem gefin voru út fyrr í dag. „Við erum bara að vinna það og það kemur bara á morgun,“ segir Anna en í milli­tíðinni er minnt á þær reglur sem birtar voru á heima­síðu spítalans í gær.