ADHD-greiningar fullorðinna munu nú heyra undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH), áður fóru þær fram hjá ADHD-teymi Landspítalans. Heilsugæslan mun annast þjónustuna í samvinnu við heilsugæslu og geðheilsuteymi í heilbrigðisumdæmum um allt land.

Óskar Reykdalsson, forstjóri HH, segir breytingarnar ekki krefjast mikils undirbúnings, strax hafi verið auglýst eftir starfsfólki. Heilsugæslunni hafi verið veittar 100 milljónir á ársgrundvelli til að sinna greiningunum, um framför sé að ræða.„Við þurfum auðvitað að fá geðlækni og annað starfsfólk inn, ef það gengur vel þá ættu þessi mál að fara í miklu betra stand.“

Biðtími hefur verið allt að þrjú og hálft ár hjá ADHD-teyminu og rúmlega 650 manns eru á biðlista. Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD-samtakanna segist taka breytingunum fagnandi.„Ef rétt reynist og með þessu fylgir viðeigandi fjármagn, þá eru þetta gleðifréttir og mun væntanlega stytta biðlista.“

Heilsugæslan hlaut í gær einnig sérstakt 75 milljóna króna viðbótarfjármagn frá heilbrigðisráðherra til að stytta biðtíma barna á Þroska- og hegðunarstöð, þar fara meðal annars fram ADHD-greiningar barna.„Geðteymi barna, sem er eftirfylgd með börnum sem glíma við andlega erfiðleika, er líka ný fjárveiting til heilsugæslunnar, þar fengum við 150 milljónir,“ segir Óskar.