„Það er bara eins og alltaf gríðarleg spenna þegar enski er að byrja og maður finnur að allir stuðningsmenn sjá fyrir sér að liðið þess vinni titilinn næsta vor. Eins og alltaf,“ segir Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri Enska boltans á Símanum, en enski boltinn hefst í kvöld þegar Crystal Palace mætir Arsenal.

Enski boltinn er eitt vinsælasta sjónvarpsefni sem til er um allan heim og Ísland er ekkert öðruvísi. Síminn tryggði sér sýningarréttinn til 2025 fyrir skemmstu og verða Tómas og félagar því í beinni með hvern einasta leik næstu árin.

Það var í mörg horn að líta hjá Tómasi þegar Fréttablaðið sló á þráðinn til hans en hann fór utan til Lundúna í morgun til að vera viðstaddur opnunarleikinn. Þá verður hann á Craven Cottage til að sjá Liverpool-liðið etja kappi gegn nýliðum Fulham á laugardag áður en hann kemur heim til að sinna Vellinum sem er alla sunnudaga.

„Við ætlum að fara reglulega út og bæta aðeins í þar. Það hefur gefist vel. Við erum með því að koma áhorfendum nær en áður og svo er líka gaman að spjalla við menn eins og Jordan Henderson og Harry Kane eftir leiki á vellinum.“

Síminn fjárfesti einmitt í græjum til að hafa uppgjörsþátt Símans, Völlinn, í beinni frá leikvöngunum í Englandi þannig að Tómas og félagar þurfa ekki að drífa sig heim á sunnudegi. „Þessi búnaður gerir okkur auðveldara um vik að vinna úti. Við erum þannig minna upp á Premier League komnir. Getum þá líka unnið efni fyrir leikina og fram í tímann þegar við förum út.“

Hann viðurkennir að það sé kominn smá fiðringur að prófa það. „Við ætlum að gera það nokkrum sinnum og ég er alveg rosalega spenntur fyrir því. Þetta er mikil tæknileg áskorun og við erum að undirbúa það vandlega,“ segir Tómas.

Tímabilið í ár verður undarlegt enda verður gert hlé á deildinni til að spila eitt stykki Heimsmeistaramót í Katar í desember. Svo byrjar deildin aftur að rúlla á öðrum degi jóla. Fari svo að leikmenn sem spila með enskum liðum fari alla leið í úrslitaleikinn fá þeir átta daga frí fyrir næsta deildarleik.

Tómas segir að stoppið verði skrýtið. „Þegar maður gekk í gegnum faraldurinn á fyrsta tímabili og öll þau stopp og frestanir sem því fylgdi hef ég ekki miklar áhyggjur af smá stoppi í nóvember og desember. Ég hlakka bara til að fá alla til baka á öðrum degi jóla hvorki meira né minna. Þetta hefur allavega mun minni áhrif á okkur en leikmennina,“ segir hann léttur og fullur tilhlökkunar. Nánar er fjallað um enska boltann á íþróttasíðum blaðsins í dag.