Samtökin Solaris vinna nú að því að safna fjármagni til að gefa börnum á flótta vetrargjöf.
„Fyrir nokkrum árum var alltaf haldið friðar- og nágrannaboð í desember þar sem öllu flóttafólki var boðið og okkar framlag þar var að færa þeim vetrargjafir,“ segir Sema Erla Serdar framkvæmdastýra og stofnandi Solaris.
Hún segir að boðin hafi dottið niður fyrir í desember en að þau hafi ákveðið að halda þessari hefð áfram.
Á þessu ári eru hátt í 300 börn á landinu sem bíða úrlausnar mála sinna í hæliskerfinu og verða gjafirnar fyrir þau. Sema segir að þegar þau byrjuðu á þessu fyrir fjórum eða fimm árum hafi þau safnað fyrir færri en 100 börn, það hafi svo verið 200 í fyrra og sé að nálgast 300 núna.
„Það er að bætast við á meðan við erum að safna, bara á milli daga. Það hefur aldrei verið svona mikill fjöldi,“ segir Sema en innan þessa hóps eru til dæmis ekki börn sem koma frá Úkraínu því þau fara ekki inn í hæliskerfið nema í svo stuttan tíma.
Sema segir að þeim þyki best að fá fjárstuðning frá fólki og að nýta þann pening sem safnast í að kaupa gjafir því mikil áhersla er lögð á að allir fái eins.
„Það er skipt eftir aldri og allir í sama aldursflokki fá sama pakka,“ segir Sema og að sem dæmi hafi verið í fyrra bækur fyrir 3 til 10 ára og gjafakort fyrir þau yngstu. Annað sem hefur verið gefið eru bangsar, piparkökur og glassúr og margt fleira.
„Stjórn Solaris bætir við gjöfina í ár Bónuskorti því við erum að finna fyrir mikilli þörf. Fólk er í mikilli neyð og á ekki nóg fyrir sínum grunnþörfum,“ segir Sema.
Hún segir að þau hafi byrjað að finna fyrir þessari auknu þörf í heimsfaraldri Covid og þá sérstaklega hjá fólki í hæliskerfinu en að þau finni líka fyrir henni núna hjá fólki sem hefur fengið vernd.
Hægt er að styrkja verkefnið með því að leggja inn á samtökin en upplýsingarnar má finna hér að neðan.
„Við stefnum á að dreifa á allra næstu dögum en ef fólk styrkir eftir það þá fer sá peningur bara í verkefni næsta árs,“ segir Sema Erla.
Hægt er að leggja inn á reikning samtakanna (RN: 515-26-600217. KT: 600217-0380) eða styrkja með aur (123 7919151) og merkja færsluna W22