Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, fær 1.032.888 kr. í laun sem stjórnarformaður Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur, án þess að mæta á fundi stjórnarinnar í þá tvo mánuði sem hann er frá störfum á meðan úttekt á vinnustaðarmenningu Orkuveitunnar og dótturfyrirtækja hennar fer fram. 

„Þótt hann taki ekki þátt í störfum stjórnar þá ber hann áfram formlega ábyrgð að lögum sem formaður stjórnar,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar. Heildarlaun Bjarna eru rúmlega þrjár milljónir á mánuði fyrir skatt, sem hann fær greiddar að fullu á meðan hann er í leyfi.

Rúmar þrjár milljónir á mánuði í leyfi

Eins og Fréttablaðið greindi fyrst frá mun Helga Jónsdóttir, fyrrum stjórnarmaður ESA, taka við störfum Bjarna á meðan hann víkur tímabundið frá störfum. Ástæða þess að Bjarni óskaði að stíga til hliðar eru fregnir af kynferðislegri áreitni a.m.k. þriggja háttsettra stjórnenda innan samsteypunnar, sem borist hafa á síðustu vikum.

Sjá einnig: Stjórnin mætti endurskoða starf alltumlykjandi forstjóra

Fréttablaðið greindi frá því fyrr í ár að heildarlaun Bjarna sem forstjóri Orkuveitunnar væru rétt tæpar þrjár milljónir króna á mánuði ef laun fyrir stjórnarsetu eru talin með. Í millitíðinni hafa laun Bjarna fyrir stjórnarsetuna hækkað samtals um tæpar 30 þúsund krónur á mánuði, og fær því Bjarni greiddar 3.022.665 kr. á mánuði fyrir skatt. Þessi upphæð helst að fullu á meðan Bjarni er í leyfi frá störfum sínum.

Hækkaði í launum í febrúar

Laun forstjórans hækkuðu í febrúar á þessu ári eftir að stjórn samþykkti tillögu starfskjaranefndar Orkuveitu Reykjavíkur. Í nefndinni sitja tveir menn úr stjórn Orkuveitunnar, þau Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður og Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi. Auk þeirra situr Ásta Bjarnadóttir, doktor í vinnu- og skipulagssálfræði, í nefndinni.

Með ákvörðun sinni í febrúar urðu grunnlaun forstjóra 2.374.110 kr. á mánuði. Ofan á það bætist svo greiðsla fyrir reiknuðum bílahlunnindum, þar sem forstjóri nýtur ekki afnota af bíl í eigu OR, upp á 132.111 kr. á mánuði. Þá standa heildarlaun Bjarna fyrir störf sín sem forstjóri Orkuveitunnar í 2.506.221 kr., en ofan á það bætist síðan 516.444 kr. fyrir stjórnarsetu í mánuði hverjum, 258.222 kr. fyrir störf sín sem stjórnarformaður í ON og sömu upphæð fyrir störf sem stjórnarformaður GR.