Kona sem var bólusett dagana 18.mars og 8.apríl með sitthvoru bóluefninu hefur enn ekki fengið bólusetningarvottorð og fær ennþá misvísandi svör frá heilsugæslunni. Of skammur tími leið á milli bóluefnaskammtana sem konan fékk.

Í fyrstu var hin blandaða bólusetning fyrirstaðan fyrir vottorði. Fyrri bólusetningin með Moderna hafði eingöngu verið skráð en ekki sú seinni sem var með bólefni frá Pfizer. Annað en blönduð bólusetning var ekki í boði á þeim stað á landsbyggðinni þar sem konan býr en hún vill ekki láta nafns síns getið.

Í svörum frá Landlækni kom fram að villa eða "annmarkar" væru í tölvuskráningu sem væri verið að laga og það skýrði þessa töf á vottorði og skort á skráningu. Síðar komu upplýsingar frá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu að ekki væri búið að hanna tölvukerfið vegna blandaðra bólusetninga eins og mbl.is sagði frá.

Önnur svör núna

Nú fær konan hins vegar allt annars konar svör á Heilsuveru, upplýsingavef heilsugæslunnar, um hvers vegna hún fær ekki vottorð. Þar stendur að of langt hafi liðið á milli bólusetninganna. Á vef Landlæknis segir að ef mismunandi bóluefni séu notuð fyrir fyrsta og annan skammt gildi tímabil milli skammta sem á við fyrra bóluefni sem var notað til að bólusetning teljist gild. Í þessu tilfelli er það Moderna.

Og stuttur tími

Á opinbera vefnumcovid.is stendur að með Moderna þurfi að lágmarki að líða 28 dagar á milli sprauta. Er því augljóst að ekki var rétt að farið við bólusetninguna því ekki liðu nema 20 dagar á milli séu sjálfir bólusetningardagarnir tveir ekki teknir með.

„Það er búið að taka mig nærri þrjá mánuði að fá einhver svör,“ segir konan í samtali við Fréttablaðið í dag.

Á Heilsuveru stendur í umræddu svari til konunnar að hún geti “... farið yfir með heilsugæslunni varðandi frávik í Covid-19 bólusetningum. Þegar því er lokið færðu hefðbundið bólusetningarvottorð.“

Bráðabirgðavottorð

„Það er engin lausn á þessu ennþá og ég er engu nær,“ segir konan um þetta svar. Henni bjóðist bráðabirgðavottorð sem hún veit ekki hvað myndi gilda lengi og það yrði einföld staðfesting prentuð út á heilsugæslunni.