„Niðurstaða Þingvallanefndar olli vonbrigðum,“ segir Hilmar Malmquist, forstöðumaður Náttúrminjasafns Íslands, sem ekki fékk umbeðinn styrk til rannsókna á bátsflaki í Þingvallavatni.Um er að ræða flak af trébáti sem talið er geta verið frá því um árið 1600 og liggur á botni Þingvallavatns við Vatnsvík.

Kafarar fundu flakið árið 2018. Við bátinn hafa fundist bein af hrossum og nautgripum frá sama tímaskeiði.Hilmar segir þarna fundnar elstu leifar timburbáts á landinu. For­athugun sem meðal annars fól í sér aldursgreiningu sé lokið. Hún sé kveikjan að því að óska eftir styrkjum til frekari rannsókna. 

„Báturinn er eldri en hollenska Mjaltastúlkan sem er við Flatey á Breiðafirði,“ segir hann.Aðspurður segir Hilmar engar skráðar heimildir varpa ljósi á bátinn sem sé með svokölluðu norrænu lagi.

„Þetta lítur út fyrir að vera vatnabátur, sem lítið er vitað um almennt hér á landi og þótt víðar væri leitað, og þess vegna viljum við rannsaka hann betur,“ segir Hilmar.

Umsókn Hilmars og Bjarna F. Einarssonar frá Fornleifafræðistofnun, um sex milljón króna styrk, var tekin fyrir á fundi Þingvallanefndar 11. mars síðastliðinn. Skv. fundargerð var þar rætt um að aðstæður vegna COVID-19 myndu hafa mikil áhrif á sértekjur þjóðgarðsins.

„Þjóðgarðsvörður greinir frá að hann hafi sett til hliðar fornleifarannsóknir á vegum þjóðgarðsins vegna óvissu í fjárhagsstöðu þjóðgarðsins,“ segir í fundargerð Þingvallanefndar.

Ari Trausti Guðmundsson, formaður Þingvallanefndar, segir þjóðgarðinn hafa haft dálitlar fjárveitingar í fornleifarannsóknir, sem undanfarin ár hafi aðallega farið í að kortleggja fornminjar á landi.„Nú þegar Covid hefur klippt svona hressilega á fjárhaginn hjá okkur er þetta sett í salt. En flakið er þarna og fer ekkert. Ef það er búið að vera þarna í fáein hundruð ár, þá getur það beðið í þrjú, fjögur ár í viðbót,“ segir Ari Trausti.

„Það eru allir í krísu auðvitað, en menn eru nú að setja peninga í svona rannsóknir þrátt fyrir kóróna­veirufaraldurinn og það eru alls kyns átök í gangi til að styrkja hitt og þetta,“ segir Hilmar.„Það er algjör synd að fá ekki betri stuðning við þetta,“ segir Hilmar og undirstrikar að ekki sé á vísan að róa með varðveislu bátsflaksins á botni vatnsins.