Kona, búsett úti á landi sem fékk blandaða bólusetningu fær ekki bólusetningarvottorð. Hún sér fram á að vera föst hér á landi og komast ekki til útlanda þar sem stórfjölskyldan ætlar öll að hittast nú í júní.

Konan, sem vill ekki láta nafn síns getið, býr fyrir norðan. Hún hafði samband við Fréttablaðið og sagði frá því að blönduð bólusetning hefði verið það eina sem henni stóð til boða. Fyrri sprautan var Moderna.

„Það kláraðist víst og ég bað um að fá að fara suður til að fá seinni sprautuna með Moderna líka en því var neitað. Eina sem var í boði var Pfizer,“ segir hún og engar upplýsingar fylgt um hvort það myndi breyta stöðu hennar í faraldrinum.

Tæknileg villa

Við fyrirspurn Fréttablaðsins til Embættis Landlæknis um þetta segir í svari: „Varðandi vottorðin þá verða þau aðgengileg í Heilsuveru og það hefur alltaf verið hugsunin. Það kom upp tæknileg villa sem er verið að lagfæra.“

„Unnið er að lagfæringu hjá forriturum. Veit ekki nákvæmlega hvenær henni lýkur en það er hægt að fá útprentað vottorð á heilsugæslustöð ef þarf,“ segir í fyrrnefndu svari eftir hádegi í dag.

Konan hefur fengið sama svar og segir að sér sé sagt “að bíða bara og vera róleg”, eins og hún orðar það. Síðdegis í dag prófaði hún upp á nýtt að prenta út bólusetningarvottorð frá heilsugæslunni. „Ég var að prenta út vottorðið mitt og það er eins óklárað og þetta er búið að taka mjög langan tíma og er ekki ennþá leiðrétt,“ segir hún.

Margar blanda bóluefnum

Konum sem fengu AstraZeneca bóluefnið en þóttu síðan of ungar svo það þyki óhætt, hefur boðist að fá annað bóluefni og blanda því saman tveimur efnum. Þetta eru 5.459 konur fæddar 1968 eða síðar.

Um helmingur þeirra hefur farið í seinni sprautuna, samkvæmt svörum frá embætti Landlæknis og aðeins tvær valið Aztra aftur í seinna skiptið, hinar blönduðu saman við önnur bóluefni.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir sagði á almannavarnarfundi í liðinni viku að óhætt væri að blanda saman bóluefnum, aðspurður um hvað ungu konurnar sem fengu Aztra ættu að gera varðandi seinni sprautuna.