Fréttir

Fær bætur frá ríkinu vegna aðgerða lögreglu

Bjarni Hilmar Jónsson fær 900 þúsund krónur auk dráttarvaxta fyrir þær aðgerðir sem lögregla réðist í gagnvart honum eftir andlát eiginkonu hans.

Maðurinn var grunaður um aðild að andlátinu en málið var fellt niður. Fréttablaðið/Stefán

Bjarna Hilmari Jónssyni hafa verið dæmdar 900 þúsund krónur í miskabætur frá ríkinu. Dómurinn var birtur í dag. Bæturnar fær hann vegna framgöngu lögreglu í kjölfar þess að eiginkona hans svipti sig lífi þann 4. júní 2016.

Forsaga málsins er að umrædda nótt, í júní 2016, hringdi Bjarni í neyðarlínuna, eftir að hafa reynt endurlífgun, og tilkynnti að eiginkona hans hefði gert tilraun til sjálfsvígs. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. Hann var í kjölfarið handtekinn af lögreglu.

Bjarni, sem sætti ríflega 22 tíma frelsissviptingu, líkamsleit, haldlagningu ýmissa muna og skoðun á tölvu- og símaupplýsingum, var grunaður um aðild að andláti konu sinnar en rannsókn á aðild hans leiddi til þess að málið var fellt niður.

Hann krafðist 4,2 milljóna króna vegna þeirra úrræða sem lögreglan beitti hann.

Fram kemur í dómnum að rannsóknaraðgerðir lögreglu hafi ekki verið tilhæfulausar, eins og málið horfði við lögreglu:

 „Liggur þannig fyrir í lögregluskýrslum málsins að stefnandi hafi verið sýnilega ölvaður, og að mati sjúkraflutningamanna og lögreglumanna er komu fyrst á vettvang voru viðbrögð hans og aðstæður á vettvangi um margt óvenjulegar. Hafi ferðatöskur legið inni fyrir dyrum íbúðarinnar þegar að var komið, stefnandi hafi síðan að þeirra mati almennt sýnt afar takmörkuð viðbrögð við ástandinu, en aðspurður gefið óljósar upplýsingar um hvenær hann hafi séð [konuna] síðast. Þá hafi fundist brotin fjarstýring sem og eyrnalokkur á gólfi, eins og [konan] var með, en á gólfi hafi einnig mátt sjá blóðdropa og blóðkám framan við stiga og í stofu. Þegar við bættust síðan upplýsingar hjá lögreglu um eiginkonu stefnanda frá því fyrr um kvöldið, sem vörðuðu meðal annars frásögn af samskiptum þeirra hjóna, taldi lögregla eins og á stóð réttast að grípa til framangreindra ráðstafana gagnvart stefnanda í þágu rannsóknar málsins.“

Fram kemur hins vegar í dómnum að rannsókn á aðild hans hafi leitt til þess að málið var fellt niður:

 „Hvað sem líður framansögðu um aðstæður og aðdraganda málsins, þá liggur nú engu að síður nægilega ljóst fyrir í málinu að hér tiltæk rannsóknargögn gefa ekki til kynna að stefnandi hafi í reynd átt nokkurn þátt í sviplegu andláti eiginkonu sinnar og var rannsókn málsins gagnvart honum, sem áður segir, látin niður falla. Þarf þá heldur ekki að fara í grafgötur með það að framangreindar þvingunarráðstafanir lögreglu gagnvart stefnanda í þágu rannsóknar málsins hljóti, eins og á stóð, að hafa verið sérlega íþyngjandi reynsla fyrir hann.“

Bjarni fékk gjafsókn og allur málskostnaður er greiddur úr ríkissjóði.


Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Tekinn aftur á ríflega 130 á Reykjanesbraut

Innlent

Lög­reglan leitaði að „Stúfi“ í Bú­staða­hverfi

Erlent

Segja asbest í barnapúðri Johnson & Johnson

Auglýsing

Nýjast

Tekinn á 132 með vélsleðakerru í eftirdragi

Kældi brennandi bíl með snjó

Glæ­ný Boeing-þota nauð­lendir í Íran

Braust inn í bíl en eigandinn sat undir stýri

Ölvaður maður bjálaðist í vegabréfaskoðun

Ísland er dýrasta land í Evrópu

Auglýsing