Grunnskólakennari hafði betur í dag mál gegn Dalvíkurbyggð í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Málið varðaði fyrirvaralausan brottrekstur kennarans úr starfi, sem átti sér ekki lagastoð samkvæmt dómnum.

Kennaranum voru dæmdar átta milljónir króna, þar af eru sex vegna fjártjóns og tvær vegna miska.

„Ekki fokking snerta mig“

Kennarasamband Íslands greinir frá þessu, og í umfjöllun þess um málið er málavöxtum lýst, en atvikið sem málið varðar átti sér stað undir lok vorannar árið 2021.

Kennarinn var að sjá um íþróttatíma sem fór fram utan húss þegar stúlka sem átti ekki að vera í tímanum mætti á svæðið. Kennaranum fannst hún vera ókurteis og bað hana um að fara af svæðinu, og hún á að hafa neitað.

Því er lýst að kennarinn settist á hækjur sér, tók um úlnlið stelpunnar og bað hana aftur um að fara í burtu. Þá á stúlkan að hafa sagt „ekki fokking snerta mig,“ og í kjölfarið löðrungað kennarann, sem svaraði sjálfur með löðrungi.

Í dómnum er því lýst að kennarinn hafi „upplifað ógn af nemandanum ásamt því sem hún upplifði nemandann í ham og gerði ráð fyrir fleiri höggum,“

Ekki boðið í lokateiti

Viku eftir þetta atvik var lagt til að kennarinn færi í launað leyfi vegna þess að málið hefði verið kært til lögreglu, en það var síðar fellt niður.

Þá var kennaranum ekki boðið í lokateiti skólans sem átti sér stað í júní. Sú ákvörðun á að hafa farið fyrir brjóstið á öðrum kennurum skólans.

Kennarar og annað starfsfólk skólans skrifaðu tvö bréf til bæjaryfirvalda í þessum sama mánuði. Annað varðaði erfiðleika í skólastarfinu, og hitt „yfirvofandi brottrekstur“ kennarans. Í því seinna var tekin fram sú skoðun að brottreksturinn væri „staðfesting á að agaleysi nemenda myndi líðast áfram“ í skólanum.

Í lok þessa Júnímánaðar var kennaranum sagt upp störfum fyrirvaralaust.

Í dómi Héraðsdómar er tekið fram að nemandinn sem kennarinn sló utan undir hafi átt við agavandamál að stríða og hafi ekki fylgt skólareglum. Þá er tekið fram að ekkert bendi til þess að einhver önnur ástæða sé fyrir kinnhesti kennarans heldur en að nemandinn hafi slegið hann á undan. Einnig er bent á að erfitt ástand hafi verið í skólanum og kennarar upplifað valda- og öryggisleysi í störfum sínum, meðal annars gagnvart ofbeldi.

Þá telji dómurinn að atvikið sé ekki gróft brot í starfi og réttlæti því ekki fyrirvaralausan brottrekstur. Þá hafi bæjaryfirvöld ekki mótmælt því að starfsferill kennarans væri flekklaus og þeim ekki tekist að sýna fram á að viðvera hans myndi skaða starfsemi skólans.

Líkt og áður segir mun Dalvíkurbyggð þurfa að greiða kennaranum átta milljónir króna.