„Auðvitað eru þetta söguleg tíðindi, segir Albert Jónsson, sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum um inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Atlantshafsbandalagið.

Albert ræddi við Lindu Blöndal á Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.

„Aðalatriðið við að tengjast NATÓ er að tengjast Bandaríkjunum, það er auðvitað mesta herveldi jarðar og langvoldugasta ríki NATÓ. „Stóra málið er að tengja Bandaríkin við Evrópu í öryggismálum.“

Hvort innganga ríkjanna tveggja geti aukið á ófrið í Evrópu segir Albert ekki svo vera. „Aðild Svía og Finna mun efla verulega NATÓ, hernaðarlega og pólitískt, aðild Finna mun styrkja svokallaða fælingarstefnu NATÓ mjög verulega í þessum heimshluta og almennt, þetta eru ríki sem hafa öfluga heri, vel búna og vel þjálfaða.“

Fælir ríki frá árás

„Þetta styrkir fælingarstefnu bandalagsins og samkvæmt þeirri lógík ertu að auka líkur á friði og auðvitað styrkir öryggi Eystrasaltsríkjanna sérstaklega,“ segir Albert.

Samstarf mikið

Löndin tvö hafa haft náið samstarf við NATÓ ríkin svo skrefið um inngöngu er ekki jafn stórt og ætla mætti af ríkjum sem eru að koma út úr hlutleysi og sér í lagi Svíþjóð, segir Albert. „Þessi ríki hafa verið í nánast þrjátíu ár í Evrópusambandinu og það er ekki hlutleysi í sjálfu sér.“

Öll aðildarríkin þurfa að styðja inngönguna og segir Albert það verða vandræðalaust þrátt fyrir að Tyrkir hafi hreyft andmælum á köflum innan varnarbandalagsins.