„Mér líst alls ekki vel á þetta,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um fyrirhugað frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra þar sem lagt verður til að aðeins einn sýslumaður verði á landinu í stað níu.

„Sú forvitnilega spurning vaknar hvaða önnur lögmál liggi að baki knýjandi þörf á að fækka sýslumannsembættum úr níu í eitt, í nafni skilvirkni, þegar sömu stjórnvöldum þótti bráðnauðsynlegt að fjölga ráðherrum úr tíu í tólf,“ segir Logi.

Mikilvægt sé að halda í embættin úti á landi og starfsemina sem þeim fylgi.

„Starfsstöðvarnar veita líka mikilvæga nærþjónustu og önnur mikilvæg staðbundin starfsemi þrífst í kringum embættin. Þar má til dæmis nefna lögmannsstörf sem er mikilvæg þjónusta við fólk í heimabyggð og nauðsynlegt að sé í boði víða,“ segir Logi.

Hann segir að stærsti hluti þeirrar vinnu leysist án atbeina yfirvalda en mikilvægur grunnur rekstrarþjónustu minnki ef sýslumannsembættum og jafnvel annarri þjónustu verði kippt burt.

„Reynslan sýnir okkur ágætlega hættuna á því að þegar hagræðingarkrafa kemur svo seinna meir muni enn molna undan þjónustu víða um land, útibú lögð niður og hún verður fátæklegri. Atvinnulífið verður einhæfara og byggðir veikjast.“

Logi bendir á að tæplega 22 prósent landsmanna hafi búið á höfuðborgarsvæðinu fyrir réttum hund­rað árum. Nú sé það um 65 prósent.

„Stjórnvöld verða að spyrja sig hvort það er æskilegt, réttlátt og hagkvæmt að ýta enn undir þessa þróun,“ segir Logi.