Bæjarráð Akureyrarbæjar tók undir bókun hverfisráðs Hríseyjar um að fallið yrði frá rétti Vegagerðarinnar til að fækka ferðum um allt að 20 prósent á samningstíma í útboði á rekstri Hríseyjarferju til næstu tveggja ára.

Bæjarráðið lagði til að bæjarstjóri myndi fylgja málinu eftir.

Í bókuninni kemur fram að almenn sátt ríki um núverandi áætlun og geti breyting á áætlun eða fækkun ferða haft veruleg áhrif á skilyrði til búsetu í Hrísey og á öryggi íbúanna. Því fari bæjarráð fram á að ferjuáætlun muni standa óbreytt með möguleika á upphringiferðum líkt og verið hefur.